Grímsey - Grímsstaðir
Sæll vertu Ögmundur
Gleðilegt er að sjá hve margir eru farnir að tjá sig um Grímsstaði á Fjöllum á heimasíðu þinni. Það virðist ennþá vera fólk á Íslandi sem er ekki sama um land og þjóð. En það sorglega við þetta allt saman er, að það er ekki sama hver er í því embætti, sem þú ert nú í. Haft er eftir alþingismanni samfylkingarinnar að hann hafi sagt: „Veitir okkur nokkuð af því að fá þessar tekjur?" Ég er ekki viss um að maðurinn geri sér grein fyrir alvöru málsins og því segi ég enn og aftur að ekki er sama hver gegnir þínu embætti.
Grímsstaðalandið er sagt vera 300 ferkílómetrar og ansi mikið skarð yrði höggvið í Ísland ef að jarðirnar Reykjahlíð í Mývatnssveit og Brú á Jökuldal ásamt Grímsstöðum á Fjöllum yrðu seldar útlendingum. Og það munar um minna ef þeir feðgar í Möðrudal, sem þar búa, féllu fyrir gylliboðum erlendra auðmanna, og margur myndi sjá eftir framlandinu í Möðrudal. Þá yrði altaristafla Jóns Stefánssonar í kirkju hans í Möðrudal væntantega tekin niður og portert af Mao Tse Tung sett upp í staðinn ef Kínverjar hreppa hnossið. Það eru aðeins 343 sölur ef að landsskiki á stærð við Grímsstaðalandið, er seldur hverju sinni.
Ólafur helgi Noregskonungur sendi lepp sinn, Þórarinn Nefjólfsson til Íslands til að véla Íslendinga til að afsala sér yfirráðin á Grímsey, en varð ekki kápan úr því klæðinu. Lengi verður Einars Þveræings minnst er hann sagði á Alþingi: „En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er enginn hlutur fluttur, sá er til matfanga er, þá má þar fæða her manns og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan, þá ætla ég mörgum kotbóndanum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum." Nú eru þeir sem ásælast Ísland lengra að komnir, enda samgöngur greiðari, en klókindin eru þau sömu og á dögum Ólafs helga, en eftir er að vita hvort Ísland á ennþá jafnoka Einars Þveræings.
Ef svo er þá mun hans verða minnst um ókomin ár.
Í grein Ólafs Kr Sigurðssonar hér á heimasíðunni segir að útlendur ríkisborgari, sem hefur keypt land í Mýrdalnum, meinar fólki aðgang að landi sínu. Ef að land þetta tilheyrir Íslandi, þá brýtur þessi útlendingur íslensk lög, sem veita mönnum aðgang að jörðum með vissun skilyrðum. Ganga má um úthagann, tína berin upp í sig og tjalda til einnar nætur svo eitthvað sé nefnt, en engu skal spilla. Ef útlendingur þessi er í fullum rétti að meina fólki aðgang, þá fer eftir þjóðerni hans, hvort þarf að halda þarna uppi landamæravörslu. Vandræðin virðast vera komin til okkar nú þegar.
Með bestu kveðjum,
Sigurjón í Hamraborginni