Fara í efni

GRUNN UMRÆÐA UM MATARVERÐ

Sæll Ögmundur.
Ósköp er hún einhliða umræðan um lækkun matarskatta. Nánast allir virðast vera sammála um ágæti þessara aðgerða. Frá mínum bæjardyrum er þetta ekki eins einfalt mál og menn vilja vera láta. Í fyrsta lagi er það óumdeilt að því lægri skattar þeim mun betra fyrir neytandann þröngt skoðað. Ef þetta hins vegar leiðir til þess að neytandinn þurfi að greiða hærri gjöld annars staðar, t,d. á sjúkrahúsum, þá horfir málið öðru vísi við. Það vill nefnilega gleymast að skattalækkun þýðir tekjurýrnun hjá ríkissjóði og sveitarsjóðum! Þetta hefur nánast ekkert verið rætt í tengslum við fyrirhugaða lækkun á virðisaukaskatti á matvörur, nema þá að sagt hafi verið í framhjáhlaupi að borð sé fyrir báru því afgangur sé á ríkissjóði. En hvers vegna er afgangur á ríkissjóði? Er það ekki vegna þess að verið er að selja eignir þjóðarinnar og vegna miklla þensluskatta? Hvort tveggja er tímabundið. Þegar þensluskeiðinu lýkur tekur hversdagurinn við. Hvernig ætla menn þá að fjármagna rekstur velferðarþjónustunnar? Reyndar er það svo núna að heilbrigðisstofnanirnar eru sveltar sem aldrei fyrr – þrátt fyrir tekjuafgang ríkissjóðs!
Sjálfur er ég gamall BSRB-ari. Upp úr 1990 þegar deilt var um matarskattinn vildum við frekar sértækar aðgerðir sem gögnuðst barnafólki svo og þeim sem ættu við sjúkdóma að stríða. Ertu annarrar skoðunar nú eða ertu mér sammála nú sem fyrr?
Grímur

Ég er þér sammála Grímur. Hins vegar er brýnt að lækka vöruverð, ekki síst á matvælum. Þar er mikilvægast að ná álagningunni niður. Þar er fyrst og fremst að finna skýringuna á okurverði á ýmsum matvælum í verslunum.
Kveðja,
Ögmundur