GUÐLAUGUR Á FJÖLDAFUNDI
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra "hélt" í gær fjölmennan „kosningafund í Hafnarfirði" ef svo má að orði komast. Kom það reyndar ekki til af góðu enda ekki við að búast. Húsfyllir, yfir tvö þúsund manns, var í íþróttahúsinu við Strandgötu og var yfirskrift borgarafundarins: „Stöndum vörð um starfsemi St. Jósefsspítala og framtíð heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði."
Einhliða hugmyndir Guðlaugs um að hætta starfsemi St. Jósefsspítala í núverandi mynd hafa vakið hörð viðbrögð Hafnfirðinga - og fólks almennt á höfuðborgarsvæðinu.
Framsaga ráðherrans á fundinum fékk líka viðeigandi undirtektir; það var púað á hann á hinum glæsilega borgarafundi Hafnfirðinga. Er vonandi að Guðlaugur Þór Þórðarson láti skynsemisraddir fólksins sér að kenningu verða en svari ekki gagnrýni á fjöldafundum eins og ónefnd samstarfskona hans: „Þið eruð ekki þjóðin." Hann yrði maður að meiri að tala ekki niður til almennings af slíkum dónaskap.
Heilbrigðisáætlun ráðherrans hefur verið andmælt á fjöldafundum víðar um landið og svo mun áfram verða að óbreyttu. Ráðherrann á því að draga plön sín til baka, hafa samráð við fólkið í landinu og fulltrúa allra þeirra sem við heilbrigðiskerfið vinna. Honum ber skylda til að ná sáttum um skynsamlegar breytingar á sameiginlegri heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar.
Jóhanna