GUÐLAUGUR AÐ ÆFA SIG FYRIR SPÍTALAHRUNIÐ
,,Ég er ekkert að þræta fyrir það og get alveg sagt eins og er að ég sá ekki þessa hluti fyrir. Mér þykir það bara mjög miður og biðst afsökunar á því," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þegar hann gerði játningar í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi um hlut Sjálfstæðisflokksins í falli bankanna og þeim efnahagsþrengingum sem markaðshyggjan og stuðningsklíkur hennar, innan flokks sem utan, hafa leitt þjóðina í. ,,Það liggur alveg fyrir," sagði Guðlaugur „að við gerðum ákveðin mistök þegar kemur að hruninu. Við skulum ekkert horfa fram hjá því." Svo bætti hann því við að ef mistökin væru alfarið Sjálfstæðisflokksins þá ætti það einnig við um það sem vel hefði verið gert á seinustu árum.
Gott hjá Guðlaugi Þór sem nú er að rembast við að lauma auðmönnum inn í rekstur heilbrigðiskerfisins og gera það þar með dýrarara fyrir alla - og líka ríkissjóð. Nú þegar heyrum við óminn af afsökunarbeiðni hins nytsama sakleysingja ef honum tekst að hleypa græðgisklíkunum og óráðsíumönnunum inn í spítalareksturinn. Þeir verða nefnilega fljótir að keyra heilbrigðisþjónustuna í þrot - og þá verður þjóðin enn og aftur sett í skítverkin berhent; hún verður látin skeina skuldirnar af auðstéttinni. Er ekki mál að linni?
Þjóðólfur