Fara í efni

GUÐLAUGUR ÞÓR BÚINN AÐ FINNA OSÖK KREPPUNNAR EÐA LEIÐ TIL AÐ EINKAVÆÐA...?

Kæri Ögmundur.
Dapurlegar eru þær fréttir sem heyrast frá heilbrigðisráðuneytinu síðustu daga um stórfelldan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Veit ég vel að þú hefur varað við því síðustu ár og mánuði að grundvallarbreytingar muni eiga sér stað í forystu sjálfstæðismanna í heilbrigðismálum. Síðustu dagar sýna svo ekki sé um villst að nú virðist draumur þeirra vera að rætast. Kreppan sem þeir voru höfundar að gerir þeim nú kleift að sjá langþráðan draum rætast og einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Guðlaugur Þór hefur reyndar algjörlega afneitað eigin hugmyndafræði í ræðustól á Alþingi nýlega og Samfylkingin er fullkomlega gagnslaus um leið og einkavæðingarbyltingin á sér stað. Kostnaðarvitund öryrkjans mun líklega aukast nú til muna þegar borga þarf fyrir innlögn á sjúkrahús. En þau eru flott á því, Ásta Möller og Guðlaugur Þór. Öryrkinn þarf víst bara að borga fyrir innlögn á sjúkrahús einu sinni í mánuði. Þá er nefnilega boðið upp á afslátt. Þetta þyrfti líklega að kynna fyrir sjúklingum, þannig að þeir geti hagrætt „veikindum sínum". En Guðlaugur Þór hefur boðað að öllum steinum verði velt við! Það er kannski einmitt á St.Jósepsspítala í Hafnarfirði sem ríkisstjórnin ætlar virkilega að láta til sín taka í því að finna orsök kreppunar. Svara kalli þjóðarinnar um að hinir seku komist ekki undan. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þið í VG eigið að láta miklu meira í ykkur heyra um þessi mál. Hvar eruð þið nú? Ég veit að þið hafið oftsinnis talað um þetta og varað við þessu en nú er þetta raunverulega að gerast. Sem heilbrigðisstarfsmaður til margra ára er ég gáttuð á fréttaflutningi fjölmiðla af málinu og þeim yfirborðskenndu og gagnrýnislausu fréttum sem af málum berast. Komið er fram við starfsmenn eins og hvert annað aukaatriði og þjóðin virðist sofa, of upptekin við annað í kreppunni, á meðan vegið er að rótum heilbrigðiskerfisins. Ég vil að þið segið miklu meira um þetta mál og það strax.
Bestu kveðjur,
SB

Þakka bréfið SB.
Ég held að það sé þetta sem kallað er að hitta naglann á höfuðið!
Kv. Ögmundur