HÆGRIHYGGJA VARAFORMANNS SAMFYLKINGARINNAR
Furðulegt er að ríkisstjórnin skuli hafa að engu tilmæli Lýðheilsustöðvar sem mæltist til þess að gosdrykkir og sykraðir drykkir yrðu ekki lækkaðir í verði nú um mánaðamótin eins og önnur matvara. Þú hefur gert þessu máli ágætlega skil hér á síðunni og á þingi . Í gærkvöldi rædduð þið svo málin þú og Ágúst Ólafur Ólafsson, alþingismaður. Ég ætlaði Samfylkingarinnar vegna að hafa sem fæst orð um þetta samtal ykkar, bæði af umhyggju fyrir þeim flokki og væntanlegu stjórnarsamstarfi ykkar. Meira að segja ætlaði ég að þegja þrátt fyrir að þessi þingmaður, sem jafnframt er varaformaður Samfylkingarinnar, virtist meira umhugað um að ráðast á þig og VG en tala um málefnið og fyrir eigin sjónarmiði. Þegar ég sá hins vegar Staksteina Morgunblaðsins í morgun ákvað ég að senda þér þessar línur. Staksteinahöfundur segir ykkur báða vera vinstri menn. Það er ég sannfærður um að Ágúst Ólafur myndi aldrei skrifa upp á, þ.e. að láta kalla sig vinstri mann! Það dæmi ég af málflutningi hans sem var samfelldur óður til markaðshyggjunnar. Hvað um það. Mogginn segir frá Kastljósþættinum á þá leið að skilja má að Ágúst hafi sett mál sitt fram á afar skipulegan og rökvísan hátt en að öðru máli hafi gegnt um þig. Öðru vísi upplifði ég nú þessar samræður og fyrir þá sem ekki sáu þáttinn sendi ég þessa tengingu: HÉR
Með kveðju,
Haffi