HÆKKUN FJÁRMAGNSTEKJUSKATTS OG HÚSALEIGAN
Sæll. Mér skilst að þú sért flutningsmaður að tillögu um að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10 % í 18 %. Alltaf virðist þið halda að bara eitthvert ofsalega ríkt fólk greiði slíkan skatt, en ekki vesælustu fátæklingar þessa lands. Mikill er misskilningur þinn. Dæmi: Undir þennan skatt falla húsaleigutekjur. Ef hann verður hækkaður um 80 % (eða hvað sem er) mun húsaleigan hækka um það. Rýrðu ekki kjör hinna lægst launuðustu með þessari vanhugsuðu tillögu ykkar. Hugsaðu málið til enda.
Virðinarfyllst,
Örn Johnson
Komdu sæll Örn og þakka þér fyrir bréfið. Reyndar er það svo að umrædd tillaga gerir ráð fyrir að "smásparendur" verði undanþegnir skatti. Það er hins vegar rétt sem þú nefnir með húsaleiguna. Til álita kæmi að undanskilja hana. Stóra málið er hins vegar að bregðast við breyttu tekjumynstri í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu er það himinhrópandi ranglæti að launafólk greiði rúm 37% tekjuskatt af launum sínum en milljónamæringar 10% af fjármagninu sem malar fyrir þá gullið. Þá er á það að líta að víðast hvar í löndum innan OECD eru fjármagnstekjuskattar miklu hærri en hér, hvort sem litið er til Bandaríkjanna eða Evrópulanda. Í greinargerð með umræddu þingmáli er farið í saumana á þessu. Þar er líka vikið að smásparandanum og segir m.a. :" Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall fjármagnstekjuskatts hækki úr 10% í 18% en jafnframt verði sett skattleysismörk við 120 þús. kr. tekjur einstaklinga á ári. ...Gera má ráð fyrir að við það verði rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt undanþegin skattinum. Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.
Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni, sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir..."
Með kveðju,
Ögmundur