Fara í efni

HAFA MENN EKKERT LÆRT?

Sæll Ögmundur.
Ég var að hlusta á Alþingi og furðaði mig á því að eini þingmaður Vinstri grænna sem er með, eftir því sem við best vitum, vonda samvisku úr góðærinu var ykkar fyrsti ræðumaður. (Var það ekki hann sem græddi á hlutabréfasölu úr Sparisjóðnum? Lagði hann einhvern tímann einhverja fjármuni inn í sjóðinn? Ég veit um sjálfstæðismenn sem seldu sína hluti á nafnverði, þannig að ef Árni Þór vildi ekki lengur vera með í Sparisjóðnum hefði hann vel getað skilað peningunum. Upphaflega sparisjóðshugsjónin hafði nefnilega lítið með hlutabréfabrask að gera).
Annars er hún lítið eftirminnileg ræðan hans, en hann fór undan í flæmingi þegar Pétur H.Blöndal spurði hann góðra spurninga um gegnsæja stjórnsýslu hjá vinstri stjórninni.
Það væri ákaflega athyglisvert ef þessir góðu skýrsluhöfundar myndu nú rannsaka vinnubrögð Steingríms J.Sigfússonar varðandi Icesave málið og samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Gegnsæið þar. Steingrímur J. réð afdankaðan embættismann sem var enn glóðvolgur eftir ömurlegan árangur í Öryggsiráðssmölun fyrir Íslands hönd sem formann nefndarinnar. Hvað þætti skýrsluhöfundum um faglegheitin á þeim bæ. Og siðanefndinni? Að ráða gamla formanninn sinn í alvarlegustu milliríkjadeilu á Íslandi! Það er náttúrlega ófyrirgefanlegt.
Ég sá að fjármálaráðherra er við sama heygarðshornið í sinni sjálfsskoðun á Vísi, þar sem hann tjáir sig um Icesave. „Ég vænti þess að seint og um síðir verði umræðan um Icesave málið málefnalegri þegar menn hafa þessa ítarlegu kortlagningu nefndarinnar um aðdraganda þess að þessi ósköp urðu til og hvernig það gat gerst að þessu var leyft að verða til og verða að þessari ófreskju sem það varð." Bíddu. Um hvað er maðurinn að tala? Ég hélt í fyrstu að hér væri verið að vitna í Árna Matt, en áttaði mig svo á því að þetta er Steingrímur J. Var einhver að tala um að læra af þessari skýrslu?
Annars langaði mig að þakka fyrir þín skrif og heimasíðu.
Hlakka til að fá þig aftur í heilbrigðisráðuneytið.
Bestu kveðjur,
Landspítalastarfsmaður