HAFA PENINGAMENN LÍTINN SKILNING Á PENINGUM?
Sæll Ögmundur.
Mér finnst einkennilegt að jafnvel þeir sem hafa umfjöllun um peninga að atvinnu skuli botna jafnlítið í þeim: Trúlítill ritstjóri Jón G. Hauksson ritstjóri er stórhneykslaður. Hneykslunarefnið er áskorun Þjóðarhreyfingarinnar til stjórnmálaflokkanna um að taka höndum saman og auglýsa ekki í ljósvakamiðlum fyrir komandi sveitarstjórnarskosningar. Jafnframt áskoruninni bendir Þjóðarhreyfingin á leiðir til að tryggja að sjónarmið þeirra sem hafa takmarkaðan aðgang að peningum komist að í ljósvakamiðlum til jafns við sjónarmið annarra. Ljósvakamiðlar eru tilteknir sérstaklega vegna þess að þeir eru þegar háðir leyfum og skilyrðum sem aðrir miðlar eru ekki; þeir eru takmörkuð gæði. Auk þess eru þeir dýrir auglýsingamiðlar og áhrifamestir. Þetta sjónarmið er uppi víða um heim þótt ekki finnist það í hugarheimi Jóns G. Haukssonar. Í öðru orðinu telur ritstjórinn ófært að ný framboð keppi við ríkisstyrkta stjórnmálaflokka. Í hinu orðinu telur hann að peningar skipti ekki máli vegna þess að það sé svo „auðvelt fyrir menn með hugsjónir að komast að í fjölmiðlum, bæði í dagblöðum og ljósvakamiðlum.“ Ritstjórinn telur samt eina vandamálið að ríkið skuli skekkja hina dýrðlegu samkeppni um pólitísk áhrif. Hvorki í gamalgrónum lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu né í Bandaríkjum Norður-Ameríku fyrirfinnst svo tröllaukin vantrú á áhrifum peninga í stjórnmálum og hjá þessum íslenska ritstjóra.
Hjörtur Hjartarson
P. S. Ekki má rugla saman almennri fjársöfnun Þjóðarhreyfingarinnar til að kosta birtingu yfirlýsingar í útlendu stórblaði og fjármálum íslenskra stjórnmálaflokka og starfsemi ljósvakamiðla.