HÁGÉ ÞAKKAÐ OG SVARAÐ
Heill og sæll Helgi Guðmundsson. Þakka þér fyrir málefnalega umfjöllun þína um vangaveltur mínar að loknum kosningum sem ég birti hér á síðunni að þinni beiðni og þú birtir einnig á þinni ágætu heimasíðu, Þjóðviljanum á Skaganum. Mig langar til að drepa á nokkur atriði í framhaldi af skrifum þínum en hvet lesendur til að skoða fyrri skrif til að átta sig á samhengi hlutanna.
Í hvaða átt kosið var
Fyrsta atriðið sem mig langar að nefna snýr einmitt að því að þér finnist vanta hjá mér að helmingur þjóðarinnar hafi ekki kosið til hægri og að innan Framsóknar séu vinstri sinnuð öfl. Ég held að við nánari yfirferð komist þú að raun um að nákvæmlega þetta er ég að segja: Að í Framsóknarflokknum sé að finna gamlan samvinnustreng sem jafnan verði virkur þegar flokkurinn starfi til vinstri, nokkuð sem ég er að hvetja til í grein minni að Framsóknarflokkurinn horfi nú til að gera.
Niðurfærsluleið Hagsmunasamtaka heimilanna
Varðandi almenna niðurfærslu skulda vil ég segja þetta um mína afstöðu og aðkomu að því máli: Frá því snemma á árinu 2008, trúlega í mars, fór gengið að lækka með þeim afleiðingum að verðbólga fór vaxandi. Við hrun í októberbyrjun var sýnt að verðbólgan færi úr böndum. Þá þótti mér einsýnt að sem neyðarrástöfun ætti að taka vísitöluna tímabundið úr sambandi. Ég lagði þetta til á fundi sem ég sat sem formaður BSRB með oddvitum þáverandi stjórnarflokka á fundi í Ráðherrabústaðnum í blábyrjun hruns. Forsvarsmenn ASÍ og SA lögðust harkalega gegn þessu. Fram skal tekið að tillögunum fylgdi að hvað lífeyrissjóðina varðar yrði jafnframt að skerða greiðslur úr sjóðunum tímabundið. Þegar komið er fram yfir áramót og eftir því sem líður á árið 2009 koma síðan fram tillögur, m.a. frá Hagsmunasamtökum heimilanna um að lántakendur og lánveitendur skipti með sér verðbólguskotinu. Lántakandinn greiði vexti og helming verðbótanna en lánveitandinn taki á sig helming verðbótanna.
Oftekið af lántakendum
Fyrir þessari leið talaði Framsóknarflokkurinn líka og hefur skýrt sína afstöðu með því að oftekið hafi verið af lántakendum og því sem oftekið hafi verið skuli skilað tilbaka. Sjálfur var ég þessu sammála enda afstaða sem ég hef haft og talað fyrir allar götur frá 1983 þegar hrikalegt misgengi varð á milli lána og launa, í reynd ekki síðara en nú varð. Ýmsir erlendir ráðgjafar sem hingað komu haustið 2008 og á fyrrihluta árs 2009 tóku undir niðurfærslusjónarmiðin, ekki bara af hagfræðilegum ástæðum heldur einnig félagslegum; að við næðum aldrei fullri sátt í samfélaginu nema þessi leið yrði farin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði hins vegar blátt bann við þessu og þar við sat.
Niðurstaðan varð sú að fjármálastofnanir fóru hina svokölluðu 110% leið sem hafði í för með sér að tugir milljarða voru afskrifaðir. Þetta töldu fjármálastofnanirnar sig nauðbeygðar að gera því að þau sem skulduðu umfram 110% af verðmæti eigna sinna yrðu aldrei borgunarfólk fyrir skuldum sínum, vænlegra til árangurs væri að gera þeim kleift að standa við það sem eftir væri.
Félagslegt ranglæti
Vandinn var sá að þau sem voru undir þessu marki og borgunarfólk fyrir skuldum sínum - rétt svo, en borgunarfólk engu að síður - lágu óbætt hjá garði. Og það sem verra var, þeim þótti þau vera órétti beitt, sáu fram á verða eins konar starfsmenn fjármálakerfisins það sem eftir væri ævinnar.
Haustið 2010 fór fram hörð umræða um þessi mál sem endaði í stórum samtalsfundum stjórnmálamanna og fulltrúa fjármálastofnana í Þjóðmenningarhúsinu og síðar þrengri fundum í Stjórnarráðinu. Þar höfnuðu fjármálastofnanirnar - og voru lífeyrissjóðirnir óbilgjarnastir - því algerlega að almenn niðurfærsluleið yrði farin og var beinlínis haft í hótunum um að yrði það reynt myndi allt loga í málaferlum vegna skerðingar á eignarrétti og þar með broti á stjórnarskrá.
Þetta voru mikil vonbrigði. Þegar hér var komið sögu fannst mörgum - þar á meðal mér - að nauðsynlegt væri að breyta um taktík og freista þess að ná markmiðunum með öðrum hætti.
Hefði betur orðið hluti neyðarlaga
Ekki væri pólitísk samstaða um að knýja fram lagabreytingar, AGS óður og uppvægur á móti og fjármálastofnarinar eins og broddgeltir við að eiga. Það er enn mín skoðun að niðurfærslu lána hefði átt að tryggja sem hluta af víðtækri lagasetningu (hluta neyðarlaga) um lánskjörin almennt á fyrstu mánuðum eða misserum eftir hrun í stað þess að fara sértækar leiðir lagaðar að hagsmunum fjármálastofnana og þar sem dómstólar voru síðan látnir um að móta farveginn eins og reyndin varð.
Sú leið sem við ákváðum að fara við þessar aðstæður var að skattleggja fjármálastofnanir og færa með þeim hætti fjármuni frá þeim yfir til lántakandans í formi vaxtabóta. Með þessum hætti var verulega bætt í vaxtabæturnar og munaði heldur betur um þær í heimilisbókhaldi fjölskyldna. Lágtekjufólk og meðlatekjufólk fékk upp undir helming vaxtakostnaðar síns greiddan með þessum hætti. Vandinn var hins vegar sá að höfðustóllinn hélst hár þannig að þessi leið var þeim annmörkum háð að hún yrði að vera viðvarandi - enda sáum við til þess á kjörtímabilinu.
Í kosningabaráttunni tefldum við því fram að vaxtabætur yrðu greiddar í upphafi árs og mætti nota til að færa niður höfuðstólinn með þeim hætti. Með öðrum orðum, okkar leið var sú að færa fjármuni frá fjármálastofnunum yfir til lántakenda og ná þannig sama markmiði og almenna niðurfærslan hefði gert.
Röng reikniformúla
Vandinn við þessa umræðu alla hefur að mínum dómi alltaf verið sá að menn hafa reynt að reikna tilkostnað við niðurfærslu inn í núið. Þetta gerðu bankarnir aldrei (nema þegar á þurfti að halda í áróðri gegn almennri niðurfærslu). Þeir horfðu til langs tíma og spurðu hver gætu verið líklegt borgunarfólk eftir fimm ár eða tíu ár; þeir spurðu með öðrum orðum, hvað borgaði sig fyrir þá að gera, hvernig gætu þeir lágmarkað tjón sitt. Þegar hins vegar hefur verið horft til Íbúðalánasjóðs hefur mörgum hætt til að spyrja, hvað kostar niðurfærsla sjóðinn núna, ef allt væri gert upp á stundinni? Þetta er að mínu mati alröng nálgun.
Um innanflokksátök
Hvað varðar „átakakenninguna" sem þú nefnir svo, Helgi, þegar þú gerir að umræðuefni þá staðhæfingu mína að „innri gagnrýnin umræða" í stjórnmálaflokki sé af hinu góða þá vil ég taka það fram að mér finnast átök hvorki sérstaklega skemmtileg né yfirhöfuð eftirsóknarverð. Mér finnst þau hins vegar æskilegri og heilbrigðari en þöggun. Það er samhengið. Og ef hægt er að snúa átökum upp í eðlilega umræðu þá er það gott og heilbrigt, æskilegt og eftirsóknarvert. Menn verða að læra að lifa með skoðanaágreiningi. Einhvern tímann verður ágreiningi að ljúka segir þú. Það verður hver og einn að meta og þá hvernig hann ber sig að í umræðunni. Er til dæmis óæskilegt að ég skrifi þessar vangaveltur þar sem minnst er á ágreining liðinna ára? Mér er sagt að einhvers staðar geri menn sér það að tómstundagamni að klippa út lítinn bút úr grein minni og spyrja síðan með þjósti hver sé nú líklegur til að leyfa sér að hafa slíkar skoðanir.
Sameinuð um markmið
Auðvitað eigum við að standa sameinuð um hugsjónir okkar og baráttumarkmið en þegar okkur greinir á um leiðir þá er það fullkomlega heilbrigt að um það sé rætt án þess að það eigi að teljast pólitísk dauðasök. Ef einhver hins vegar heldur að deilur innan raða VG hafi verið mér kærkomnar og ánægjuefni þá er það mikill misskilningur.
Þegar ég greini orsakir og afleiðingar vandræða okkar í kosningum þá nefni ég m.a. þau mál á kjörtímabilinu, sem urðu okkur að deiluefni og sem ég tel að hafi haft áhrif á gengi okkar. Ég gæti tínt fleira til eða farið ítarlegar í málin. Geri það ef til vill síðar, til dæmis aðkomu AGS að okkar málum og afstöðu verkalýðshreyfingarinnar sem vildi ganga harðar fram í niðurskurði en sjálfur varðhundur alþjóðakapítalismans, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.
Að njóta sannmælis
Vangaveltur mínar sem urðu kveikjan að skrifum þínum ágæti félagi, Helgi Guðmundsson, setti ég fram í samhengi við þá stöðu sem nú er uppi rétt eftir kosningar, þar sem Framsóknarflokkurinn stendur með pálmann í höndunum og Sjálfstæðisflokkur er óþægilega stór miðað við þá sérhagsmunastefnu sem sá flokkur rekur. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar í sárum, að afloknu mjög sérstöku kjörtímabili. Ég hef leitað skýringa á þessu og þá einnig horft inn á við en þar hefur þú einkum staðnæmst og horft framhjá almennum skýringum mínum á þeirri stöðu sem uppi er, og lúta meðal meðal annars að skammtímaminni þjóðarinnar á því hruni sem hér varð og skýrir þá miklu efnahagserfiðleika og erfiðu pólitísku stöðu sem við var að glíma á kjörtímabilinu. Þar var ríkisstjórnin aldrei látin njóta sannmælis.
Fyrri greinar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vangaveltur-ad-loknum-kosningum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/helgi-gudmundsson-skrifar-um-orsok-og-afleidingu