Fara í efni

HAGSMUNIR HEILDARINNAR OFAR ÖLLU ÖÐRU – BURT MEÐ KLÁMIÐ !

Kæri Ögmundur...
Ég tek svo sannarlega undir pistil þinn á vefsíðu þinni með fyrirsögninni “HVER ER MUNURINN Á VÍTISENGLI OG KLÁMFRAMLEIÐANDA?”
Þá tek ég sérstaklega undir mótmæli Kolbrúnar Halldórsdóttur 8. þingmanns Reykjavikurkjördæmis norðurs, gegn samkomu klámframleiðenda á Íslandi í næsta mánuði.
Ögmundur það hljóta að vera einhverjir Íslendingar sem róa að þessum ósóma, vegna gróðavona, t.d. kæmi mér ekki á óvart að samkomustaður þeirra sem þangað stefna, þeir íslenskir einstaklingar sem þjóna þeim á ýmsan hátt, fjölmiðlar og þá jafnvel Flugleiðir,,, rói að því að þessir hórumangarar, þrælasalar og barnaníðingar komi til landsins!
Það er slík skömm að nokkrum manni láti sér detta í hug að leyfa slíkt, að maður getur varla rætt né skrifað um þetta. 
En Ögmundur, það verður að upplýsa hvaða Íslendingar og fyrirtæki standa að baki þessu, hvort sem af klámsamkomunni verður eða ekki!
Ögmundur, ég vil virðingarfyllst einnig spyrja þig þar sem þú eyddir tíma þínum sem alþingismaður og verkalýðsleiðtogi á sínu  tíma, til að efast um, með þónokkurri speki, hvort ekki hafi verið mannréttindalög brotin á “háttvirtum” Vítisenglum á sínum tíma, samanber þin eigin orð hér á síðunni, og hefur þá á vissan hátt lagt drög að ætlun sukkgræðgimannskapsins nú, sem ætlast áreiðanlega til meðmæla þinna.
Því er spurningin; hvort þú skuldir ekki heiðvirðum Íslendingum afsökun, allavega hreina og beina ábendingu á að þú hafir séð að þér og og sjáir eftir ummælum þínum í þessa veru og sért betri maður fyrir bragðið!
Auðvitað eru það hagsmunir Íslendinga í sínu eigin föðurlandi, sem skiptir ÖLLU máli en ekki meint mannréttindi einhvers óþjóðalýðs sem reynir að ryðjast inn á landið!
Að sjálfsögðu á að vísa rumpulýð úr landi umsvifalaust og án undanbragða, ég tala nú ekki um þá sem koma til landsins í þeim yfirlýsta tilgangi að efna til ráðstefnu um glæpastarfsemi sína! Á að taka slíkum mönnum sem hverjum öðrum túristum?
Að sjálfsögðu var það fullkomlega eðlilegt að banna komu Vítisenglanna til landsins á sínum tíma. Vafi leikur hins vegar á þinni afstöðu Ögmundur í þessu máli ; manns sem ég tel góðan sómakæran, greindan og heiðarlegan Íslending. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þú hafir tekið upp hanskann fyrir glæpamennina. Það væri stórfurðulegt, svo ekki væri fastar að orði kveðið. Ég vona að þú látir vera að styðja hátíð klámframleiðendanna í þetta sinn, á grundvelli "mannréttinda" . Hafðu í huga að um er að ræða menn sem skirrast ekki við að fótumtumtroða hagsmuni og sómatilfinningu íslensku þjóðarinnar!
Ég veit vel háttvirtur Ögmundur, að það getur verið erfitt að dæma um mannréttindi hverju sinni. Þau eru afstæð, byggð á siðum, geðþótta, eða storknuðum hugsjónamisskilningi sem lærðist fyrir mörgum árum. Þess vegna verður ætíð að hafa í huga að kvarðinn er ekki mannréttindi sem einhver óljós og óskilgreind hugmynd sem iðulega er notað til að réttlæta hvaða ósóma sem er í þjóðfélagi voru. 
Kvarðinn er og verður alltaf hvert málið er á grundvelli tilveruhagsmuna Íslensku þjóðarinnar!!!
Ef “hagsmunir” einstaklinga stangast á við hagsmuni Íslensku þjóðarinnar, þá er enginn efi á að hagsmunir heildarinnar, þjóðarinnar skulu æðri!
Við verðum ætíð hafa í huga að það er þjóðræknin sem verður að vera vort sverð og skjöldur. Ekki einhver útlend tilfinningaþrungin áróðurshugtök, sem ætlað er að þjóna annarlegum tilgangi sem oft er þvert á vilja og hagsmuni íslensku þjóðarinnar!
Helgi Geirsson

Heill og sæll Helgi.
Til að taka af allan vafa: Ég vil hvorki Vítisengla né þessa klámráðstefnumenn hingað til lands. Ég er einvörðungu að benda á, að í réttarríki eru menn dæmdir sekir eða saklausir eftir atvikum, ef sekir þá eru menn dæmdir til refsinga, sæta refsingu og þar með basta. Þetta er grundvöllur réttarríkisins. Það breytir ekki hinu að ég var feginn að Vítesenglar, sem hingað ætluðu að koma til að nema ný lönd fyrit glæpastarfsemi sína heppnaðist ekki ætlunarverk sitt. Það þótti mér gott.
Kv.
Ögmundur