Fara í efni

HÁLFKARAÐ STEINSTEYPUBÁKN Á HÁLENDINU?

Sæll Ögmundur.
Sá sem þetta skrifar er ekki einn af þeim sem í grundvallaratriðum eru á móti því að útlendingar fjárfesti á Íslandi heldur tel ég að það eigi að skoða hvert dæmi fyrir sig og meta það. Það á til dæmis við um áform kínverska auðmannsins á Grímsstöðum á Fjöllum. Það sem ég óttast mest í þessu sambandi er að farið verði á stað með stórframkvæmdir sem síðan koðna niður í miðju kafi. Versta hugsanlega niðurstaða úr öllu saman væri að við sætum uppi með hálfkarað steinsteypubákn á hálendinu, öllum til ama og engum til nota. Slíkt verður að koma í veg fyrir með öllum ráðum. Nú má auðvitað vera að Kínverjinn sjái þarna einhverja viðskiptamöguleika sem við áttum okkur ekki á í fljótu bragði en þá tel ég að hann þurfi að gera grein fyrir þeim áður en fjárfestingar hans eru samþykktar.
Guðmundur J. Guðmundsson