HALLDÓR ER ENN Á HNJÁNUM EN HVAR ER UPPLÝSINGAFULLTRÚINN?
Undirlægjuháttur íslenskra valdhafa í garð bandarískra stjórnvalda virðist ekkert hafa breyst þrátt fyrir einleik Bandaríkjamanna nú á dögunum en með honum verður ekki betur séð en þeir hafi, góðu heilli, gefið út dánartilkynningu fyrir herstöðina á Miðnesheiði og eigi nú bara eftir að auglýsa jarðarförina með formlegum hætti. Þrátt fyrir þessi tíðindi halda Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og félagar hans áfram að skríða fyrir bandarískum stjórnvöldum í þeirri veiku von að geta áfram stundað þó ekki væri nema agnarögn af gjöfulu hermangi hernámsflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, sem skjólstæðingar þeirra hafa fengið að garfa í með góðum árangri í gegnum tíðina. Er þetta þeim mun dapurlegra þegar það er nú orðið deginum ljósara að ríkisstjórn Íslands hefur verið höfð að fífli af bandarískum stjórnvöldum; hún hefur verið dregin á asnaeyrunum um margra ára skeið í makalausum sýndarviðræðum sem valdamenn í
Í þessu leikriti, sem íslenskir ráðamenn vissu reyndar ekki að þeir væru þátttakendur í, hefur nefndur Halldór farið fremstur í flokki á undanförnum árum – og fer enn. Hann hefur lengst allra verið dreginn á asnaeyrunum og gott ef ekki um sjálft Hvíta húsið. Já, þær eru ófáar ferðirnar sem hann hefur farið til Bandaríkjanna á hnjánum til fundar við spunameistarana þar. Fróðlegt væri nú í þessu sambandi að fá staðgóðar upplýsingar um hvað Halldór Ásgrímsson hefur slitið hnén úr mörgum sparibuxum á þessum ferðum sínum vestur um haf. Upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, Steingrími Ólafssyni, ætti ekki að vera skotaskuld úr því að draga saman í fljótheitum öruggar upplýsingar um buxnamál forsætisráðherrans. Fulltrúinn Steingrímur hefur nefnilega oftar en ekki sýnt að hann er sannkölluð hamhleypa til allra góðra verka og sérlega vandaður við heimildaöflun hvers konar. Fyrir skemmstu skartaði hann einmitt þessum ágætu eiginleikum sínum í greinarkorni í Blaðinu þar sem hann fjallaði á hlutlægan og yfirvegaðan hátt um stjórnarandstöðuna og meintan vesaldóm hennar. Buxnamál Halldórs hljóta því að verða upplýsingafulltrúanum auðveld viðureignar. Og ekki sakaði ef með fylgdu fáeinar myndir af leiðtoganum þar sem hann stendur hnarreistur í bæði hnén við hliðina á valdhöfum vestra en upplýsingafulltrúinn var amk. fyrst um sinn óþreytandi við myndatökur af ráðherranum með fyrirmennum ýmsum, heima og að heiman.