Fara í efni

Harðneskjulegur dómur Hæstaréttar?

Sæll Ögmundur. Mér finnst hæstaréttardómurinn yfir Árna Johnsen harðneskjulegur. Hann braut vissulega af sér og á skilið refsingu, en hugsum þetta út frá refsingunni, tveggja ára fangelsisdómnum. Refsingin er yfirbótin - skuldin sem þú átt samfélaginu að gjalda fyrir að brjóta af þér. Allt annað en refsingin í sakamáli af því tagi sem við erum hér að ræða um er hægt að toga og túlka - refsingin er og verður hinn eini áþreifanlegi raunveruleiki. Hún er það sem eftir stendur þegar lögmennirnir hafa teflt fram öllum trixunum - allri þekkingu sinni - og dómararnir hafa myndað sér skoðun á grundvelli kokkteils, sem hlýtur að vera sambland af túlkun á lögum, frammistöðu skikkjuklæddra lögmanna, sjálfstæðu mati á efnisatriðum og þeim félags-sálfræðilega ramma sem dómararnir eru hnepptir í. Refsingin er kaldur raunveruleikinn sem hinn dæmdi þarf að takast á við. Þetta er mælikvarðinn á brotið. Dæmi eru um að ógæfumenn séu að riðlast á börnum sínum og annarra, dæmi eru um ógæfumenn sem nauðga konum, dæmi eru um afbrotamenn sem misþyrma öðrum mönnum og hálfdrepa. Það eru dæmi um að sumir þessara manna hafi hlotið vægari dóma en Árni Johnsen fyrir brot sín. Þess vegna er dómurinn yfir Árna Johnsen harðneskjulegur. Hann er harðneskjulegur dómurinn yfir Árna Johnsen af því með honum er verið að senda þau skilaboð út í samfélagið að það sem hann gerði sé alvarlegra en það sem barnaníðingurinn gerði, nauðgarinn eða ofbeldismaðurinn. Ella hefðu dómararnir lagt annað mat á brot Árna. Í barnaníðingsmálum eru fórnarlömb, eins og í nauðgunarmálum og annars konar ofbeldismálum. Í Árnamálinu eru engin fórnarlömb í þeim skilningi. Sá félags-sálfræðilegi rammi sem hæstaréttardómarar virðast hnepptir í þarfnast skoðunar finnst mér. Ertu sammála Ögmundur? Finnst þér dómurinn harðneskjulegur eins og mér?
Hafsteinn

Komdu sæll Hafsteinn.

Ég vil byrja á því að þakka þér fyrir bréfið þar sem þú hreyfir við mjög djúpum spurningum um réttarfar. Það er vissulega þungur dómur að vera sviptur frelsi sínu í tvö ár. Það þekkja þeir sem hlotið hafa slíkt hlutskipti. Þú segir: "Refsingin er kaldur raunveruleikinn sem hinn dæmdi þarf að takast á við. Þetta er mælikvarðinn á brotið." Þetta er rétt að refsing er sá raunveruleiki sem hinn dæmdi þarf að takast á við og jafnframt mælikvarði samfélagsins á brot hans. Í bréfi þínu berð þú refsingu Árna Johnsen saman við refsingu fyrir níðingsverk sem sett eru neðar á hinn réttarfarslega og þá um leið hinn siðferðislega mælikvarða samfélagsins enda þótt ofbeldisverkin hafi miklu verri afleiðingar í för með sér fyrir þann sem verður fyrir barðinu á glæpnum. Þetta þykir mér umhugsunarvert.

En mig langar til að beina til þín spurningu varðandi mat á refsiverðu athæfi með tilvísun til fórnarlamba glæpa. Er leiðin til að rétta hlut fórnarlambs alltaf sú að beita refsingu í samræmi við þjáningar þess? Ég hef trú á því að samfélagið þurfi að koma miklu betur til móts við fórnarlömb glæpa en gert er. Þá hef ég í huga félagslegan og fjárhagslegan stuðning. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort krafa um mjög þungar refsingar geti leitt okkur inn á þá braut að líta á dóma sem leið samfélagsins til að ná fram hefndum fyrir hönd þess sem brotið bitnaði á. þegar í ljós kemur að í óhugnanlega mörgum tilvikum er brotamaðurinn sjálfur fórnarlamb frá fyrri tíð þá renna á mann tvær grímur. Ég tek hins vegar undir með þér að fyrir ofbeldisverk á að dæma mun þyngri refsingu en fyrir önnur brot svo sem stuld. þarna erum við sammála enda er þetta þungamiðjan í þínu máli. Ég sé hins vegar að þú hefur velt þessum málum mikið fyrir þér Hafsteinn og væri fróðlegt að heyra álit þitt á þessum vangaveltum um glæp og refsingu, réttælti og hefnd.

Kveðja,Ögmundur