Fara í efni

HÁVAXTASTEFNA DÝRU VERÐI KEYPT

Stýrivextir eru helsta stjórntæki Seðlabanka Íslands á innlendum peningamarkaði. Stýrivextir lækkuðu árið 2002 úr 10.1% á fyrsta ársfjórðungi í 5.8% í árslok, en hækkuðu síðan úr 6% í 14% frá maí 2004 til október 2005.
Hækkun stýrivaxta eftir maí 2004 leiddi til sívaxandi útgáfu erlendra skuldabréfa í íslenzkum krónum og meðfylgjandi hækkun á vaxtagjöldum þjóðarbúsins úr 35 milljörðum 2004 í 61 milljarð 2005 og 167 milljarða 2006.
Samsvarandi tölur yfir nettó vaxtagjöld (þ.e.a.s. að frádregnum vaxtatekjum) voru 27 milljarðar, 40 milljarðar og 94 milljarðar.
Á tólf mánaða tímabilinu frá júlí 2006 til júníloka 2007 námu vaxtagjöld þjóðarbúsins 225 milljörðum króna (nettó 119 milljarðar).
Við upphaf hækkunarferils stýrivaxta í maí 2004 nam hækkun vísitölu neyzluverðs um 4% á ársgrundvelli.
Liðlega tveimur árum síðar, í ágúst 2006, höfðu meint verðlækkunaráhrif hærri stýrivaxta ekki skilað sér - hækkun vísitölu neyzluverðs á ársgrundvelli var liðlega tvöfalt hærri, eða 8.6%.
Ávextir hávaxtastefnu Seðlabanka Íslands síðan maí 2004 hafa því verið keyptir dýru verði.
Og hefur þó fórnarkostnaður þjóðarbúsins vegna gengisáhrifa hennar ekki verið tekinn með í reikninginn. 
Gunnar Tómasson