HEFJUM KÖNNUNAR-VIÐRÆÐUR VIÐ ESB
Fjölmiðlar keppast nú við að túlka kosningaúrslitin sem sigur Evrópusambandssinna en kosningarnar snérust ekki um ESB, heldur þá alvarlegu stöðu sem þjóðin er komin í og ekki síður hvernig samfélag við viljum móta í framhaldi af því. Um það snérust kosningarnar. Engu að síður tókst fjölmiðlum að draga upp þá mynd að hér færi fram einhverskonar boðhlaup til Brussel. Sjálfur hef ég átt samtöl við fjölda fólks úr öllum flokkum og tekið eftir því að fáir eru sáttir við stöðu íslensku krónunar, en á meðan upptaka Evru kallar á fulla aðild að ESB telja flestir viðmælendur mínir að fórnarkostnaðurinn yrði of hár. Um það hvort okkur hugnast að vera í slagtogi með þessum félagsskap er sjaldnar rætt.
Það má benda á að sum aðildarríki ESB hafa ratað í sömu ógöngur og við og ekki notið þeirrar aðstoðar sem þau væntu frá Brussel, þvert á móti fá þau nú þau skilaboð að upptöku Evru verði enn og aftur frestað hjá þeim þar til þau uppfylla skilyrðin fyrir aðild að myntbandalaginu. Það kostar fórnir. Það má árétta það hér að ekkert þeirra framboða sem tóku þátt í nýafstöðnum kosningum var myndað til að þræla okkur inní Evrópusambandið né til að halda okkur utan þess. Evrópusambandið er ekki trúarsöfnuður. Það er bandalag iðnríkja sem hefur þróað með sér gríðarlega miðstýringu sem teygir anga sína um öll svið þessara þjóða og gerir kröfu um að auðlindum aðildarríkja þess sé deilt.
Landbúnaðarstefna ESB er vægast sagt rotin og hin sameiginlega sjávarútvegsstefna þess ætti að hræða hvern einasta Íslending frá aðild. Þeir eiga fátt eitt eftir en að flísaleggja Eystrasaltið og Norðursjóinn.
Við Íslendingar eigum engra annara kosta völ en að moka okkur sjálf uppúr þeim vanda sem við erum í. Við skulum eiga viðskipti við þjóðir bæði innan og utan ESB hér eftir sem hingað til. Það gerum við á eigin forsendum og með því að standa á eigin fótum.
Við skulum einnig gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif aðild að ESB hefur á fríverslunarsamninga okkar við aðrar þjóðir og utanríkisviðdkipti yfirleitt. Sjálfur hef ég búið í Evrópu og átt viðskipti og góð samskipti við fólk og fyrirtæki þar á bæ. Ég fylgist vel með þeirra umræðum og evrópskum fjölmiðlum. Það er mér því hulin ráðgáta hvert sjálfskipaðir talsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu sækja umboð sitt þegar þeir lofa okkur gulli og grænum skógum, nýjum gjaldmiðli og jafnvel undanþágum í nafni ESB .
Í Brussel segja þeir sem þar ráða ferðinni annað, engar varanlegar undanþágur, þið verðið að uppfylla skilyrðin og undirgangast regluverkið eins og það leggur sig. Svokallaðar samningaviðræður við ESB snúast fyrst og fremst um aðlögun, ekki undanþágur enda getur Evrópudómstóllinn gert okkur afturreka með þær.
Að lokum þetta: Það verður ekki hjá því komist að klára þessa aðildarumræðu án þess að einhver telji sig hafa orðið undir í deilunni.
Því legg ég til að ríkisstjórnin ef ekki allir þingflokkar sameinist um að óska eftir könnunarviðræðum við Evrópusambandið svo fljótt sem auðið er. Þær eru ekki jafn formlegar og beinar aðildarviðræður sem hefði þann kost að kalla fram hreinskilin svör beggja vegan borðsins. Hverjar eru ítrustu kröfur og hvar liggja þolrifin hjá báðum aðilum. Að slíkum viðræðum loknum vitum við hvort það þjónar hagsmunum okkar og þeirra að halda áfram eða hvíla málið um sinn.
Ragnar A. Þórsson