Fara í efni

Heilbrigða í sjúkrarúmin

Góður hagfræðingur er þarfasti þjónn nútímamannsins. Hann er vinurinn sem segir til vamms, á hann má stóla í hverri nauð, hann hefur vit á öllu sem við hin skiljum ekki. Hann útskýrir fyrir okkur í ljósu máli að Markaðurinn með stórum staf leysi, af ótakmarkaðri fórnfýsi, hvers manns vanda. Af næmni sinni fyrir því sem skiptir máli í lífinu veit hann að allt kostar peninga og þreytist ekki á að minna okkur á að fara vel með.
Þorsteinn Gylfason prófessor er einn af þörfustu þjónunum og segir okkur með jöfnu millibil í Fréttablaðinu hvernig heimurinn á að vera og skortir hvorki skarpskyggni né lipurt málfar. ,,Frjáls verðlagning á markaði færir framleiðendum og neytendum heim sanninn um það, hvað hlutirnir kosta í raun og veru,” segir hann 4. desember sl. Sannarlega orð í tíma töluð. Hann hefur áhyggjur af heilbrigðiskerfinu og segir að almenningur eigi ,,þess ekki kost að greiða milliliðalaust fyrir heilbrigðisþjónustu... Almannavaldið er milliliður í heilbrigðis- og menntamálum og slævir með því tilfinningu fólks fyrir því, að fjárútlát til þessara mála komi því sjálfu að gagni. Hér höfum við auðvitað ástæðuna til þess, að við kaupum sjálf í matinn frekar en að fela Innkaupastofnun ríkisins að sjá um það.”
Af þessu skarplega áliti prófessorsins sér Þrándur í hendi sér að sjúklingar ættu að ,,greiða milliliðalaust” fyrir lyf, aðgerðir og umönnun, því öðru vísi komast þeir ekki að því ,,hvað hlutirnir kosta í raun og veru”. Það væri miklu eðlilegra að þeir keyptu sjálfir lyfin, ella slævist tilfinning fyrir því að lyfin ,,komi þeim sjálfum að gagni.” Vitaskuld! Það ættu að vera stjórnarskrárbundin mannréttindi að hver sá er liggur á milli heims og helju, fái að sjá reikninginn, og umfram allt að losna við milliliðinn, almannavaldið, áður en aðgerðin sem bjargar lífi hans er hafin. Auk þess gefur að skilja að sjúklingar eiga sjálfir að velja sér lyf, eins og að kaupa í matinn ,,frekar en að fela Innkaupastofnun ríkisins að sjá um það.”
Stóri vandinn felst aftur á móti í því að sjúklingar hafa af dæmalausri útsjónarsemi náð svo fullkominni einokun á heilbrigðiskerfinu að stappar nærri göldrum. Þeir eru fleinn í holdi skynsamlegrar hagfræði. Þeir skulu alltaf fá sitt fram þegar í harðbakkann slær og urmull af ábyrgðarlausum heilbrigðisstarfsmönnum eru sífellt tilbúnir að vaka daga og nætur, og kosta öllu til svo koma megi hinum veiku á lappir aftur. Ofurvald sjúklinganna á lyfjaiðnaðinum þekkja allir. Leysi maður vind, fái hnerraköst, gigt eða hjartaáfall eru lyfjafyrirtækin umsvifalaust komin á staðinn og bjóðast af auðmýkt til að þjóna hinum sjúka.
Hér verða samkeppnisyfirvöld að grípa í taumana. Fái sjúklingar áfram að einoka heilbrigðiskerfið munu útgjöldin vaxa út í það óendanlega. Lausnin liggur í augum uppi – við verðum að hleypa heilbrigðum í sjúkrarúmin. Þeir eru miklu ódýrari í rekstri og hafa ekki sama ofurvaldið á heilbrigðsstéttunum og hinir veiku. Þetta nýja kerfi mætti taka upp í áföngum. Rétt er að byrja á því að senda þriðjung sjúklinga heim af spítulunum og láta þá borga ,,milliliðalaust fyrir heilbrigðisþjónustu” og finna þannig fyrir því ,,hvað hlutirnir kosta í raun og veru.” Þannig myndu sparast gríðarlegir fjármunir. Sjúklingarnir myndu að sönnu ekki aðeins finna hvað hlutirnir kostuðu – heldur líka til tevatnsins fyrir að leyfa sér að vera veikir, en eru þeir nokkuð of góðir til að sanna hagfræðikenningar Þorsteins Gylfasonar?                
Þrándur.