HEILRÆÐI FYRIR STELPUR
Ungar konur elska best,
þær óttast vart sinn herra.
En sá sem konur svíkur mest
má sjálfur tár sín þerra.
Hafðu bæði háð og spott,
hörku skalt þú sýna,
aðeins það er gilt og gott
sem gleður sálu þína.
Ekki margra átt þú tryggð
þótt ýmsir þrái að snerta.
Víst þú skalt þeim veita styggð,
sem vilja hold þitt sverta.
Hafðu það í huga fremst,
sem hagnað þér má færa;
aðeins sú í álnir kemst
sem eitthvað gott vill læra.
Auðvitað er alltaf gott
að iðka menntun kæra.
En verstu karla valdaplott
verður þú að læra.
Körlum sýndu kröfugerð
í krafti verka þinna,
með jafnréttinu fram þú ferð
því flest þú kannt að vinna.
Öflugt stolt þitt er í reynd
og aldrei má það dala.
Gefðu skít í launaleynd,
en láttu verkin tala.
Lamar hugann lánið valt
ef leti telst þín iðja.
Hærri laun þú hérna skalt
heimta - ekki biðja.
Innri reisn er mögnuð mynd,
mátt þinn fram hún laðar.
En undirgefni er sú synd
sem allar konur skaðar.
Kveðja,
Kristján Hreinsson