HIN HIMNESKA HJÁLP
Í austri var maður sem karlmönnum kenndi að hlýða
og konurnar lét hann fá festu sem engu var lík
hann ógnaði fólki og svo var hann stöðugt að stríða,
hann stærði sig jafnan af því hversu þjóð hans var rík.
En skósveinar auðvaldsins sögðu hann þjáningu þyngja
að þar færi maður með sprengju og heimtaði blóð.
Og heimurinn heyrði svo vopnin í vindinum syngja:
-Við erum hér til að hjálpa þér heiðingjaþjóð.
Og handhöfum valdsins fannst ógnin í austrinu stækka,
þeir ætluðu sjálfsagt að frelsa hinn hnignandi heim,
með markvissu stríði svo hugðust þeir fíflunum fækka
en fíflin þau voru þó aðeins á mála hjá þeim,
og hræsnarar heimsins þeir ætluðu öllu að bjarga
því alþjóðavæðingin sá hvernig baráttan stóð
og herskáir létu þeir vopnin í vindinum garga:
-Við erum hér til að hjálpa þér heiðingjaþjóð.
Og mönnum varð ljóst þegar hernaðarheimild var fengin
að hér hafði tekist að sviðsetja stórfenglegt spil
og núna er vitað að hættan var akkúrat engin
þótt áfram sé leitað að sprengju sem var aldrei til.
Og samseku þjóðunum öllum er ætlað að þegja
því olíugróðinn skal mynda hinn digrasta sjóð.
Það hljómar svo vel þegar vopnin í vindinum segja:
-Við erum hér til að hjálpa þér heiðingjaþjóð.
Hver krossfari Drottins nú skelfir og skemmir og stelur
með skáldaðar sakir en þykist þó trúa á Krist
og aðrir frá brennandi rústunum fara í felur
svo fórna þeir jarðneskri raun fyrir himneska vist,
með herkænsku gera þeir hugstola gísla
höfðinu styttri, þá fossar úr æðunum blóð
svo hlusta þeir á þegar vopnin í vindinum hvísla:
-Við erum hér til að hjálpa þér heiðingjaþjóð.
Kristján Hreinsson, skáld