HINGAÐ OG EKKI LENGRA – ÞÖKK SÉ ÖSSURI
Ég varð undrandi og döpur þegar ég heyrði formann Samfylkingarinnar segja á fundi flokksins á síðstu helgi að nú þyrfti nauðsynlega að hleypa einkaaðilum inn í orkumálin. Hvað mundi slíkt þýða? Kannski að allir landsmenn verði ríkari líkt og félagi Hannes Hólmsteinn, fyrir hönd nýkapítalismans, er búinn að hjakka á síðastliðin 30 ár? Nei, auðvitað ekki en yfir okkur mundi dynja enn ein kollsteypan í þeirri gríðarlegu misskiptingu sem hefur hvolfst yfir samfélagið undanfarin 20 ár. Fyrir utan svo hærra verð á rafmagni og heitu vatni og að auki þá niðurníðslu á samfélagslegum eigum sem kapítalisminn skilur gjarnan eftir sig þar sem engar forsendur eru fyrir lögmál hins frjálsa markaður.
Eins döpur og ég varð þegar ég heyrði Ingibjörgu Sólrúnu boða það sem almenningur er búinn að fá nóg af hresstist ég mikið við að heyra í Össuri Skarphéðinssyni í kvöldfréttum í gær. Hann virðist vita hvað klukkan slær hjá meirihluta landsmanna því ef ég skildi hann rétt boðaði hann löggjöf á haustþingi sem mun tryggja meirihlutaeigu samfélagsins í mannvirkjum og dreifikerfi þeirra dýrmætu orkulinda sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Um leið og ég vona að ég hafi misskilið formann Samfylkingarinnar vil ég þakka iðnaðarráðherra fyrir þann skilning og þekkingu sem hann hefur á vilja og þörfum landsmanna.
Anna Jóna