Fara í efni

HJARTANS ÞAKKIR TIL MOGGANS

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tók þig í kennslustund í gær og ekki skortir á að kennarinn vill nemanda sínum vel. Um það er hvorki meira né minna að tefla en að koma þér loksins til manns. Kennarinn vill ekki bara kenna þér að lesa og skrifa, sem og aðrar venjubundnar námsgreinar. Nei, þér hlotnast fyrst og fremst sá sjaldgæfi heiður að fá sérstaka aukatíma í ráðherrafræðum þar sem megináhersla er lögð á þá nútímalegu hugsun og hegðun sem þú þarft að hafa til að bera svo hægt sé að lyfta þér á valdastól. Að vísu er enginn alvöru ráðherrastóll í boði fremur venju heldur er um sama gamla eldhúskollinn að ræða sem Mogginn hefur oftsinnis boðið ykkur vinstri grænum að tylla annarri rasskinninni á – sér í lagi meðan hann þurfti að hæla ykkur í hástert á kostnað Samfylkingarinnar þegar  hún slóst um atkvæðin við Sjálfstæðisflokkinn.

En hvað þarft þú að tileinka þér til að mega klifra upp á ráðherrakoll Moggans? Það er nú tómt skitterí að mati kennarans, einungis smáviðvik við auðstéttina. Þú þarft bara að sýna henni smávægilega gjafmildi: gauka að henni auðlindum þjóðarinnar og hlaða svo orkugeiranum undir afturendann á þotuliðinu svo það nái aukinni flughæð yfir þræla sína og öðlist betra útsýni til að eygja ónumin lönd í sinni óstöðvandi gróðafíkn. Þar gleymir Mogginn að benda skjólstæðingum sínum á ýmsa fýsilega kosti, m.a. á holræsakerfið. Í því liggja að sjálfsögðu miklir gróða- og sóknarmöguleikar ef rétt er á haldið og þarf sannarlega ekki að óttast neina handvömm í þeim geiranum. Allt má nefnilega verðleggja í frjálsu markaðskerfi - meira að segja stykkin sem við öll þurfum nauðsynlega að losa okkur við í dagsins önn. Í þeim efnum er markaðurinn tryggur og ekki er verra að holræsakerfið er einfalt en ekki margfalt og því er einokunarverslun óhjákvæmileg.

Að lokum vil ég þakka þér fyrir einarða og ódrepandi baráttu gegn einkavæðingartryllingnum sem yfir okkur gengur. Þú átt mikinn stuðning í þeirri baráttu, stuðning sem gengur þvert á allar flokkslínur. Þá langar mig loks að biðja þig að birta með bréfi mínu leiðara Moggans því hann er hreint afbragð og mun sóma sér vel á væntanlegri markaðshyggjudeild Þjóðminjasafnsins sem fyrr eða síðar verður opnuð í þeirri góðu stofnun við hátíðlega athöfn - og vonandi sem allra fyrst.
Með baráttukveðju,
Þjóðólfur



Morgunblaðið 26. sept. 2007

Ögmundur Jónasson, alþingismaður og einn af helztu forystumönnum Vinstri grænna, er á alvarlegum villigötum í grein, sem hann skrifaði hér í Morgunblaðið í gær um orkumál í formi opins bréfs til Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Í grein þessari segir þingmaðurinn m.a.: „Ætlið þið að láta óátalið að þjóðin verði svipt orkulindunum? Eða ætlið þið að bregðast við með lagasetningu, sem tryggir eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum og að grunnþjónusta verði ekki færð einkafyrirtækjum í einokunaraðstöðu? Ábyrgð ykkar er mikil.”

Þau sjónarmið, sem fram koma í grein Ögmundar um eignaraðild útlendinga að íslenzkum auðlindum, áttu einu sinni við en ekki lengur. Hvað varð til þess að breyta þessum viðhorfum? Það voru fjárfestingar íslenzkra fyrirtækja í auðlindum annarra þjóða. Slíkar fjárfestingar hófust á tíunda áratug síðustu aldar, þegar íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki hófu að fjárfesta í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum og fengu þar með aðgang að sjávarauðlindum annarra þjóða.

Þegar sú framþróun hafði orðið í íslenzkum sjávarútvegi varð ljóst, að við Íslendingar gátum ekki og getum ekki með nokkrum rökum neitað erlendum fyrirtækjum að fjárfesta í íslenzkum sjávarútvegi.

Nú er svipuð þróun að verða í orkugeiranum. Íslenzk orkufyrirtæki eru að leita eftir að fjárfesta í orkuauðlindumþjóða víða um heim. Það er augljóst að í orkugeiranum eru sennilega meiri tækifæri til fjárfestinga en við höfum áður kynnzt. Það er af og frá, að við getum búizt við því, að aðrar þjóðir telji sjálfsagt að við getum fjárfest í orkuuppbyggingu á þeirra vettvangi á sama tíma og við höfnum fjárfestingum þeirra í íslenzkum orkufyrirtækjum.

Við hljótum að horfast í augu við þann veruleika að í þessum efnum sem öðrum í samskiptum þjóða í milli verður gagnkvæmni að ríkja.

Við getum ekki búizt við að geta nýtt okkur tækifæri til fjárfestinga t.d. í jarðvarma í öðrum löndum ef erlend fyrirtæki fá ekki að gera það sama hér.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki ætlast til alls af öðrum en láta ekkert í staðinn.

Það er tími til kominn að Vinstri grænir opni augun fyrir því, sem er að gerast í kringum okkur. Þess vegna er sú stefna, sem Ögmundur Jónasson boðar í grein sinni í Morgunblaðinu í gær, gömul og úrelt og hann og flokkssystkini hans eiga að hafa kjark til þess að horfast í augu við það. Ella verða þau aldrei hæf til þátttöku í ríkisstjórn á Íslandi.

Möguleikar okkar til þátttöku í virkjun auðlinda annars staðar eru miklir og við megum ekki eyðileggja þau tækifæri, sem þar blasa við.