Hjartnæmur fréttatími
Hann var hjartnæmur fréttatíminn í ríkissjónvarpinu í gær, 14. september. Hann hófst með langri umfjöllun um embættislok Davíðs Oddssonar. Allt var það í léttum tóni, hann var sáttur við sín störf, talaði svona eins og roskinn og reyndur stjórnmálamaður sem getur litið yfir farsælan feril, svolítill heilsubrestur, en hann gerir samt að gamni sínu, þetta gengur allt bara bærilega, þeir hafa jú lent í veikindum líka Halldór Ásgrímsson og Colin Powell, já, vel á minnst, Colin Powell. Þeir spjalla stundum saman í síma og það lítur vel út með samskiptin við Bandaríkin eftir að Davíð sest í stól utanríkisráðherra, Powell gefur sér alltaf tíma fyrir Ísland þótt margt hvíli á honum. Og svo kom næsta frétt: yfir áttatíu manns fórust í sprengjutilræðum í Írak í dag, og við sáum myndir af reykjarbólstrum, brotnum veggjum og illa særðu fólki, grátandi aðstandendum – þar var nú ekki sama æðruleysið. Og forsætisráðherrann var ekki truflaður á sínum síðasta embættisdegi með spurningum um hvort innrásin í Írak hafi kannski verið mistök, hvort það hafi verið misráðið að styðja hana, hvort væri kannski ekki rétt að nefna það við Powell að þetta sé allt bannsett klúður.
Einar