Fara í efni

HLEGIÐ Í BETRI BÍL

Sæll og blessaður Ögmundur.
Nokkuð er nú rætt um kostnað við kaup útvarpsstjóra á bifreið sem hann kaus sér þegar Ríkisútvarpið var enn ríkisstofnun og ekki ohf. Bílamál þessi eru hugsanlega jakatoppur sem skýst fyrir tilviljun úr kafinu. Kannski er ráðslagið alvanalegt hjá ríkisforstjórum. Kannski eru þau forstjóri Tryggingastofnunar, þjóðleikhússtjóri, eða aðrir ríkisforstjórar sem röðuðust formlega í launaflokk með útvarpsstjóra þegar hann var hjá ríkinu öll á Audi Q7? Kannski þarf laun verkamanns á einu ári til að borga af bílum þess og kannski önnur til að þvo, snyrta og bóna fákana. Langar þig ekki Ögmundur til að vita það hjá Ríkisendurskoðun hvort eða hve margir ríkisforstjórar eru á bílakjörum eins og fullyrt er að útvarpsstjóri hafi verið á í fyrra? Annað smáatriði tengt Ríkisútvarpinu. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, gerði að mínum dómi heiðarlega tilraun til þess fyrir skemmstu að ræða efnisframboð og menningarlegar skyldur Ríkisútvarpsins ohf. Hann reyndi með öðrum orðum að feta sig inn á þá braut að ræða innihaldið. Það var greinilega of mikið fyrir fjölmiðlamennina sjálfa. Viltu selja, viltu ekki selja. Þetta voru þeirra spurningar. Djúpar eins og fingrafar á nýbónuðum glæsivagni. Ekki kom þetta mjög á óvart. Ég saknaði þess að þú Ögmundur skyldir ekki eiga samtal við Björn Bjarnason um innihald og menningarlegar skyldur Ríkisútvarpsins ohf. Það er ekki of seint að taka við sér. Það er full ástæða til að ræða efnisval, dagskrárlegar skyldur og efnisvald fyrirtækis sem djöflast á markaði eins og einkafyrirtæki, sbr. “kaupþingsdíllinn”, en á svo hvenær sem er að geta hlaupið í skjól af nefskatti ríkisstjórnarinnar.
Kveðjur,
Stefán

Þakka bréfið Stefán. Ekki hef ég trú á því að forstjórar ríkisstofnana fái bifreiðar til afnota á kostnað almennings. Ég hefði haldið að háeffun þyrfti til að svo gæti orðið. Sjálfsagt er að ganga úr skugga um þetta þegar þing kemur saman og stjórnarmeirihlutinn þarf að axla ábyrgð í heyranda hljóði. Eflaust mun menntamálaráðherra hrekja þá fullyrðingu/getgátur þínar að útvarpsstjóri hafi fengið bifreið til afnota á meðan RÚV var enn ríkisstofnun. Þá veit ég ekki alveg hvað þú átt við þegar þú víkur að "Kaupþingsdílnum" sem þú kallar svo. Ef þú ert að vísa til tónleikanna á Laugardalsvelli þá ætla ég að RÚV hafi einfaldlega litið á þá sem gott sjónvarpsefni og ákveðið að ráðast þannig í "íslenska dagskrárgerð" - eða hvað? Seint trúi ég því að Kaupþing hafi keypt sig inn á RÚV.
Kv.
Ögmundur