Fara í efni

HLJÓÐLÁTAR HREINSANIR

Sæll og blessaður Ögmundur.
Gott að vita af þér sem heilbrigðisráðherra. Ég sendi þér þetta fyrir hönd okkar nokkurra lækna sem höfum verið að furða okkur á því hvernig skipulagsbreytingar gætu sparað á sjöunda milljarð króna eins og fyrrverandi ráðherra er að segja. Þetta er tært rugl allir læknar vita að 80% af útgjöldum kerfisins er launakostnaður. Við vorum að bera okkur saman félagarnir og metum að yfirvinnan í kerfinu sé þetta 6 milljarðar. Með því að skera hana niður, ráða fólk til að sinna því sem yfirvinnufíklarnir hafa sinnt vorum við að reikna út gróflega að þarna mætti spara 3 milljarða og fjölga fólki en ekki fækka. Gott mál í atvinnuleysinu er það ekki? Annars vildum við líka vekja athygli þína á að fyrrverandi ráðherra fækkaði fólki. Hann rak Magnús Pétursson, forstjórann á Lansanum, hann rak Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjórann, hann rak Davíð Gunnarsson, ráðuneytisstjórann, og hann rak Önnu E. Ólafsdóttur hjá Lýðheilsustöð. Það er mjög merkilegt að sjálfstæðismenn skuli í þessu ljósi treysta sér til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir hreinsanir. Allur þessi fríði flokkur Guðlaugs Þórs lét reka sig án þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta hlýtur að þýða af hópurinn gefur labbað út með fína starfslokasamninga og af því við heyrðum þig nefna verktakalaun í fréttunum í dag liggur fyrir að spyrja: Hver var kostnaðurinn við þessar hreinsanir? Vonum að þú takir vel á í kerfinu.
Fyrir hönd fjögurra lækna á vinstri kantinum,
Sigurjón