HÖFUÐBÓLIÐ OG HJÁLEIGAN
Sæll Ögmundur.
Nokkur orð um kosningafundinn við Lækinn okkar hér í Hafnarfirði. Að loknum kosningum 1991 tók Alþýðuflokkurinn, síðar Alþýðuflokkurinn – Jafnaðarmannaflokkur Íslands og síðast Samfylking, að sér að verða stuðningsflokkur Sjálfstæðisflokksins. Þetta gerðist þótt ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem hafði unnið glæsileg afrek á stjórnmálasviðinu, héldi velli í kosningunum. Opinbera skýringin á framvindunni er sú að alþýðuflokkstopparnir hafi ekki treyst sér til að ná EES samningnum í hús með Steingrími Hermannssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni og litist betur á forystu Sjálfstæðisflokksins sem fram að því hafði verið frekar andvíg samningnum og talaði um hríð, ef mig misminnir ekki, um tvíhliða samninga við ESB. Kannske var hin raunverulega skýring sú að alþýðuflokksbroddarnir töldu nauðsynlegt að taka upp notendagreiðslur í heilbrigðiskerfinu, skera niður barnabætur og barnabótaauka hjá ungum fjölskyldum, taka vexti af námslánum og tryggja með því jafnrétti til náms, rústa vaxtabótakerfinu og leggja drög að þeirri markaðsvæðingu samfélagsins sem nú er orðin hálfgerð ófreskja. Ófreskja sem þeir, sem þá voru gerendur, eiga erfitt með að horfast í augu við, þegar þeir líta í baksýnisspegill stjórnmálanna. Nú klæðast þeir sumir róttækum frakka utan yfir. Ég veit ekki af hverju mér datt þetta hækjutímabil Alþýðuflokksins í hug þegar ég heyrði málflutning fulltrúa Samfylkingarinnar í SV-kosningaþættinum í kvöld. Mér fannst allt í einu að aftur væri komið árið 1991. Fái sá frambjóðandi einhverju ráðið sýnist mér að Samfylkingin sé í huganum komin uppí hjá íhaldinu að ekki sé fastara að orði kveðið. Mér finnst tími til kominn að þið látið forystumenn Samfylkingarinnar svara því snarlega hvort þeir telja Sjálfstæðisflokkinn bestu trygginguna fyrir velferðarstjórn á forsendum jafnaðarstefnu, eins og manni heyrist farið að bera á síðustu dagana ef við leggjum eyrað að jörðu og hlustum eftir dyni augnabliksins eins og sannir náttúruunnendur. Manni dettur í hug að það hefði kannske þurft betri túlka úr skandínavískum málum á landsfundi Samfylkingarinnar þegar maður heyrir málflutning fyrsta og fjórða manns á lista Samfylkingar í Kraganum svo lítið virðast þeira hafa náð af því sem Mona Sahlin og Helle Torning-Schmidt voru að benda á. Mér finnst full ástæða til þess Ögmundur að þið þvingið það upp úr forystu Samfylkingarinnar hvort sá flokkur hefur í hyggju að vera ekki bara hækja, heldur bókstaflega göngugrind, fyrir þreyttan Sjálfstæðisflokk. Tónarnir sem heyrðust á landsfundi Samfylkingar, hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í sjónvarpi að loknum þeim fundi og hjá þeirra fyrsta manni í SV í kvöld, finnst mér gefa tilefni til að SF svari því á hvaða leið þau eru. Við sem viljum jafnaðarstjórn og ætluðum að kjósa Samfylkinguna flytjum okkur þá bara yfir á ykkur og tryggjum Samfylkingunni klassískt Alþýðuflokksfylgi. Ekki kýs maður Samfylkinguna til að mynda velferðarstjórn með Sjálfstæðismönnum eftir að hafa haft þá við stjórnvölinn í 16 ár. Það væri þá betra fyrir þá, sem trúa að leiðin að innsta kjarna jöfnuðar liggi í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, að fara beint á höfuðbólið og sleppa viðkomu á hjáleigunni.
Kveðja,
Stefán