Fara í efni

Húmoristarnir í Framsóknarflokknum

Framsóknarmenn eru einstaklega ómálefnalegir þessa dagana enda er hlutskipti þeirra ekki öfundsvert. Þeir hafa eftir bestu getu reynt að þagga niður lýðræðislega umræðu um fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir á Austfjörðum. Það hefur ekki tekist, þeir standa frammi fyrir þjóðinni með bera botna, en reyna bjarga sér úr klípunni með trúðslátum og sprelli. Enn einn brandarakarlinn, Þráinn Bertelsson, treður nú upp og gengur í smiðju – eða réttara sagt haughús – grínistanna Ísólfs Pálmasonar, Guðna Ágústssonar og Valgerðar Sverrisdóttur, og auðvitað mætti tína fleiri til. Er illa komið fyrir þeim ágæta og skemmtilega kvikmyndagerðarmanni en hann ku ganga með þingmanninn í maganum og þá dugir ekkert annað en að fylgja flokkshúmornum.

Rosalega fyndinn bakhluti?

Lítum á eitt dæmi úr pistli hans á bakhluta Fréttablaðsins 16. desember. Þar kemst þingmannsefnið á sannkallað framsóknarflug og eys óspart úr skítadreifara sínum yfir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð:

“Rauðihægriflokkurinn hyggst loka öllum raforkuverum landsins á næstu fimm árum og fjarlægja ummerki um stíflur og rafmagnslínur innan tíu ára svo að nóg pláss verði á hálendinu fyrir erlenda ferðamenn. Þar sem hvert þúsund ferðamanna veldur meiri umhverfisspjöllum en meðalstórt raforkuver munu ferðamenn … klæðast vistvænum bleyjum svo að þeir saurgi ekki náttúru landsins. Bleyjurnar verða síðan endurunnar og pressað úr þeim svonefnt “túristatað” til notkunar sem eldsneyti.”

Þetta er rosalega fyndið hjá Þráni og með fylgir ósvikinn bakhlutahúmor í bland sem nýtur mikilla vinsælda hjá yngstu kynslóðinni. Hann sleppir að vísu hinu klassíska fjallagrasa- og hundasúrubragði en þrátt fyrir það mun hann án efa gera mikla lukku á meðal brandarakarlanna sem fyrir eru í fleti í þingflokki framsóknarmanna, eftir endurtekinn lestur og viðeigandi skýringar á kvöldvökum.

Þeir gefa skít í lýðræðið

Miklum meirihluta þjóðarinnar er lítið skemmt, hann sér ekki annað í málflutningi framsóknarmanna en skrumskælingu á lýðræðinu. Þeir gefa í bókstaflegum skilningi skít í málefnalegar umræður; reyna þess í stað að hæðast að þeim sem eru ekki handgengnir stóriðjuáformum þeirra fyrir austan. Þeir finna að það er að fjara undan málstaðnum, vaxandi efasemda gætir meðal þjóðarinnar. Vonandi heldur fram sem horfir. Vonandi halda spaugarar Framsóknarflokksins áfram að reyta af sér brandarana því þá munu þeir uppskera í samræmi við það í stóriðjuáformum sínum og í komandi kosningum. Skítkastið hittir þá sjálfa fyrir. Mykjan úr fjósi Framsóknarflokksins hefur orðið æ ófrjórri með árunum og er ekki einu sinni lengur brúkanleg til eldsneytis. Lifandi vitni um það er þingmannsefnið Þráinn Bertelsson. Löngum gat hann glatt landsmenn með skemmtilegum kvikmyndum, skrifum og útvarpsþáttum. Nú eru gamansögurnar hans orðnar ófrjóar og leiðinlegar - í þeim er enginn neisti lengur.
Stefán

Ég þakka þér bréfið Stefán eða öllu heldur greinina. Sannast sagna hugsaði ég þegar ég las hana að þörf er á því á heimsíðunni að fá fjölmiðlaumfjöllun þar sem grein af þessu tagi myndi verða sett. Ég er að hugsa um að koma þessu í framkvæmd hið allra fyrsta.
Ögmundur