Fara í efni

Húrra fyrir ÖBÍ !

Öryrkjabandalag Íslands birtir heilsíðuauglýsingu í blöðum í dag með mynd af ríkisstjórninni og áminningu um svikin loforð hennar gagnvart öryrkjum. Sviksemi ráðherranna við öryrkja þarf að halda hátt á lofti alveg fram að næstu Alþingiskosningum. Þessi mannskapur virðist komast upp með allt vegna gleymsku almennings og síðan að sjálfsögðu lýtaaðgerða fyrir kosningar þegar stjórnarflokkarnir, sérstaklega Framsókn, birtist kjósendum sem saklaus og óreyndur stjórnmálaflokkur sem berst fyrir umbótum í gatslitnu kerfi.
Sunna Sara

 Ég tek undir með þér Sunna Sara að mikilvægt er að halda til haga verkum ríkisstjórnarinnar. Þetta minnir mig svolítið á þá gömlu góðu daga þegar Sigtúnshópurinn var og hét. En fyrir þá sem ekki muna reis hér mikil hreyfing sem barðist fyrir úrbótum í húsnæðismálum eftir að samstjórn þessara sömu flokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hóf mikið stríð við húsnæðiskaupendur eftir að hún tók við völdum árið 1983. Sú stjórn var þó nærri miðju stjórnmálanna miðað við hægriöfgamennskuna sem nú ræður ríkjum! Það breytir því þó ekki að hún stóð sig afleitlega gagnvart fólki í húsnæðishraki. Þetta lagaðist eftir því sem leið á kjörtímabilið. En þá hafði ríkisstjórnin líka fengið að horfast í augu við sjálfa sig nokkrum sinnum í heilsíðuauglýsingum svipuðum þeim og nú birtast á vegum Öryrkjabandalagsins. Húrra fyrri ÖBÍ. Baráttan lifi! Hún skilar árangri þótt um síðir sé.
Ögmundur