Hvað ef Hannes hefði verið ófríður væskill og kjarklaus kveif?
Á 100 ára afmæli heimastjórnar er mikið gert með Hannes Hafstein, fyrsta íslenska ráðherrann, og það svo að jaðrar við persónudýrkun. Allt er þetta svo sem í takt við strauma samtímans þar sem hjákátleg dýrkun á fáeinum einstaklingum og framtaki þeirra er alls ráðandi en framlag almennings og þjóðarinnar er lítils metið.
En hvað ef Hannes hefði nú ekki verið glæsimenni og stórskáld – hvað ef hann hefði verið með afbrigðum ófríður, sannkallað greppitrýni og ofan í kaupið veiklunda væskill? Hvað ef hann hefði, eins og hver önnur kerling, óttast storminn en ekki elskað hann? Hefði hann þá verið í miðpunkti hátíðahaldanna eða hefði honum verið haldið til hlés vegna þess að hann passaði ekki inn í ímyndariðnað nútímans og hina opinberu sagnfræði?
Ég hef velt þessu dálítið fyrir mér að undanförnu og komist að þeirri niðurstöðu að dagskrárgerðarmenn afmælisins hefðu að gefnum þessum forsendum valið þann kostinn að afmarka ekki sjónarhorn sitt einungis við ásjónu og atgervi Hannesar. En sem betur fer lék lánið við skipuleggjendurnar. Hannes var eins og klæðskerasniðinn fyrir hugmyndafræði þeirra; hann var fagurt glæsimenni, hann var karlmenni, hann var opinbert athafnaskáld og einnig kröfugt þjóðskáld. Og gott ef það er ekki staðföst trú dagskrárgerðarmanna heimastjórnarafmælisins að sjá megi ýmis líkindi með Hannesi og núverandi forsætisráðherra. Skemmir “sú skemmtilega tilviljun” auðvitað ekki fyrir oss Íslendingum á þessu merka afmælisári.
Þjóðólfur