HVAÐ ER AÐ GERAST VIÐ EYJABAKKA?
Sæll! Mig langaði bara til að komast að því hvað er að gerast þarna við Eyjabakka. Nú er það þannig að ég þekki mann sem er að vinna þar sem gröfumaður(og er búinn að vera það í ca. ár) og hann segir að það sé verið að sökkva Eyjabökkum svona án þess að segja neinum. Hann er búinn að vera þarna í langan tíma þannig að þetta er búið að vera að gerast í einhvern tíma. Það á víst að reisa þar einhverjar stíflur og læti. Getur það verið? Er þetta rétt hjá honum? Með kveðju,
Guðrún Beta
Sæl Guðrún Beta og þakka þér tilskrifið.
Ég hef spurt staðkunnuga um áhyggjur þínar vegna Eyjabakkasvæðisins sem horfið var frá að leggja undir miðlunarlón, þökk sé baráttu margra á sínum tíma. Engin breyting hefur mér vitanlega orðið á þeirri stefnu að vernda Eyjabakkasvæðið og væntanlega að gera það að hluta af Vatnasjökulsþjóðgarði. Um er að ræða sléttlendið ofan við Eyjabakkafoss með sínum Eyjum og upptakakvíslum Jökulsár í Fljótsdal austan undir Snæfelli. Engar framkvæmdir tengdar Kárahnjúkavirkjun eru á þessum stað.
Hinsvegar teygir Kárahnjúkavirkjun anga sína nærri svæðinu þar eð unnið era ð því að stífla Jökulsá í Fljótsdal nokkuð neðan við Eyjabakkafoss með svonefndri Ufsarstíflu og ofan hennar verður dálítið lón og frá því er vatn leitt inn í jarðgöng tengd Kárahnjúkavirkjun. Einnig er Kelduá stífluð nokkru austar og verður þar talsvert lón sem m.a. tekur yfir Folavatn og er það skammt austur af nyrðri hluta Eyjabakkasvæðisins. Fleiri ár minni eru stíflaðar nokkru austar á Hraunum og veitt í Ufsarlón.
Gegn öllum þessum áformum börðumst við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði eins og Kárahnjúkavirkjun í heild.
Vona að þetta svari fyrirspurninni en ef þú býrð yfir frekari vitneskju væri gott að heyra aftur frá þér.
Með bestu kveðjum,
Ögmundur