HVAÐ GERIR ÞÚ ÖGMUNDUR?
Sæll Ögmundur.
Finnst þér ekki merkilegur málflutningur þeirra manna sem hafa hamast gegn ríkisstjórninni að við munum að sjálfsögðu borga þessa skuld og einnig að nú vilja sumir sjálfstæðismenn finna leiðir til að forða því að þetta mál fari fyrir þjóðina. Er það kannski vegna þess að þjóðin gæti samþykkt lögin? Mig langar til þess að vita hvort að þú munir í aðdraganda þessara kosninga beita þér gegn lögunum og fara þá um leið í herbúðir stjórnarandstöðunar. Ég held að það hafi komið Íhaldsflokkunum á óvart það sem Ólafur gerði. Þeir hafi vonast til þess að hann myndi skrifa undir og þá gætu þeir haldið áfram að reyna að fella ríkisstjórnina og nítt niður forsetann. Ég var og er ósammála Ólafi en þetta er hans ákvörðun og mér dettur ekki í hug að níða hann niður fyrir það. Þú veist það að þessi skuld hverfur ekki frekar en aðrar skuldir sem þessir sömu aðilar komu okkur í og ekkert hefur verið talað um. Að lokum vil ég ítreka mína spurningu hvað ætlar þú að gera Ögmundur???????
Viðar Magnússon
Sæll og þakka þér bréfið. Ég held mig við þær "herbúðir" sem ég tel gagnast best íslenskum hagsmunum. Okkar sameiginlegu hagsmunir eru að láta þetta mál ekki kljúfa okkur í stjórn og stjórnarandstöðu. Ég hef aldrei sóst eftir því að vera í herbúðum Íhaldsins gagnstætt ýmsum í stjórnarmeirihlutanum, fór auk þess úr ríkisstjórn til að forða henni frá falli!
En svo ég svari spurningu þinni beint. Ég hef fagnað því að málinu skuli hafa verið skotið til þjóðarinnar eftir að það fór frá þinginu. Hvatti reyndar til þess. Myndi fella frumvarpið ef kosið væri nú. Er því hins vegar fylgjandi og eindreginn hvatamaður að þess verði freistað að taka málið upp að nýju einsog verið er að gera nú þverpólitískt og vinna þannig að betri lausn og réttlatari.
Kv.
Ögmundur