HVAÐ HEFURÐU GERT FYRIR MIG?
Sæll Ögmundur Jónasson.
Nú fer að halla undir að þínum sorglega ferli á vinnumarkaðinum fari að ljúka. Þú starfaðir sem formaður BSRB frá 1988 til haustsins 2009. Þú hefur starfað sem alþingismaður, heilbrigðisráðherra, og nú sem ráðherra mannréttinda- og dómsmála og sveitarstjórna- og samgöngumála. Mig langar að vita. Hverju hefur þú skilað af þér um æfinna sem hefur verið til hagsbóta fyrir mig og svo kallaðan lítilmagnann (verkamann)? Getur þú talið það upp? Kveðja,
Ragnar Egilsson
Sæll Ragnar. Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör. Þegar þú telur upp störf sem ég hef gegnt gleymir þú því að ég var um áratugar skeið fréttamaður á Ríkisútvarpinu og ýmsum öðrum störfum hef ég einnig sinnt. Kanski gætir þú skrifað upp á að ég hafi hugsanlega unnið þar eitthvað til gagns (að vísu ekki fyrir þig sérstaklega), fyrst þú dæmir allt annað sem ég hef gert um dagana misheppnað og ómögulegt.
Annars óska þér alls góðs.
Með kveðju,
Ögmundur Jónasson