Hvað viljiði þá? Hvað viljiði í staðinn fyrir virkjun og álver fyrir austan?
Menn hafa verið að lýsa eftir sáttum. Menn hafa farið þess á leit að stríðandi fylkingar slíðruðu sverðin. Menn hafa sagt: Nú hefur ákvörðun um virkjun og álver verið tekin og við verðum að horfa fram á veginn. Og menn hafa jafnvel farið fram á upplýstar samræður. Ég hef mikla samúð með þankagangi af þessu tagi, en hér eins og í náttúrunni verða hlutirnir að vera í réttri röð. Er hægt að ætlast til þess að við, andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar og andstæðingar álversins, slíðrum sverðin og sættumst við þá sem tóku ákvörðunina? Mitt svar er nei, og það segi ég vegna þess að upplýstar umræður hafa ekki orðið um alla þætti málsins og þjóðin hefur ekki verið spurð t.d. í þjóðaratkvæðagreiðslu um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Væri sú staðreyndin og hefði þjóð mín sagst vilja virkjun og álver hefði ég orðið að bíta í það súra epli og sætta mig við niðurstöðuna þótt ég væri ósátt við hana. Þetta eru forsendurnar fyrir því að menn geti leyft sér að fara fram á sættir nú - eftir að ákvörðun hefur verið tekin.
Fylgjendur virkjunar og álversins fyrir austan hafa þráspurt okkur andstæðingana: Hvað viljiði þá? Hvað viljiði í staðinn fyrir virkjun og álver fyrir austan? Í spurningum felst tvennt. Í fyrsta lagi vanmetakennd þess sem telur að allt sé að hrynja saman á Austfjörðum, í samfélaginu og íslensku efnhagslífi. Í öðru lagi vantraust á frumkvæði einstaklinganna, sem búa fyrir austan eða í þjóðfélaginu öllu - vantraust á athafnasemi einstaklinganna í þjóðfélaginu. Hvað viljiði þá? Hvað viljiði í staðinn fyrir virkjun og álver fyrir austan er spurt. Heiðarlegasta svarið sem enginn vill láta hafa eftir sér er þetta: Ekkert - ég vil ekki gera neitt sérstakt. En þetta þarfnast vitaskuld skýringar. Í svarinu felst traust á þeim einstaklingum sem með hugmyndaflugi og útsjónarsemi hafa byggt upp íslenskt nútímalegt atvinnulíf í að minnsta kosti 120 ár. Kraftmiklir einstaklingar hafa haslað sér völl á Austfjörðum og víða um landsbyggðina og búið til atvinnulíf úr einhverju sem öðrum kom ekki til hugar að gæti brauðfætt fjölskyldur, þorp eða kauptún. Það þarf ekki 200 milljarða framkvæmd til að tryggja að fantasían fari á flug. Það eru ekki nema þrír áratugir frá því menn fundu uppá að leggja drög að stórútgerð í ferðaþjónustu sem byggist á að sýna Íslendingum og útlendingum hálendið. Það eru ekki nema tveir áratugir frá því menn tóku að krúsa með útlenda ferðmenn og íslenska um Jökulfirðina og nágrenni. Fyrirtæki eins og Marel er varla komið úr mútum og framfarir í sjávarútvegi eru ótrúlegar. Ekki vegna kvótakerfisins og einkavæðingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar heldur vegna útsjónarsemi og kunnáttu eigenda og starfsmanna í greininni. Þegar ég horfi til alls þess sem hefur gerst, án virkjunar og álvers, þá er sá raunveruleiki nægileg sönnun þess að réttlætanlegt er að svara spurningunni Hvað viljiði þá? Hvað viljiði í staðinn fyrir virkjun og álver fyrir austan? með einföldu: Ekkert. Við eigum ekki að láta þá spyrja okkur. Það erum við sem eigum að spyrja: Af hverju hafiði svona miklar áhyggjur af Austfjörðum, eða Norðausturkjördæminu? Af hverju hafiði ekki sömu áhyggjurnar af Vestfjörðum? Af hverju hafiði ekki sömu áhyggjurnar af þeim skara fólks sem streymir í Kópavoginn, Hafnarfjörðinn og Reykjavík og hefur flosnað upp af landsbyggðinni vegna samþjöppunar kvóta í útgerðinni? Af hverju hafiði ekki sömu áhyggjurnar af fólkinu sem hefur nánast verið gert eignalaust með einfaldri sölu kvóta frá útgerðarstöðum sem höfðu fengið að þróast í 300 ár fyrir árið 1990? Eru fólksflutningarnir frá Vestfjörðum eitthvað öðru vísi en frá Austfjörðum? Flytur öðru vísi fólk þaðan? Skiptir það kannske minna máli? Og svo eigum við að spyrja, úr því stefna valdhafanna er að nota ríkisvaldið og ríkisfyrirtækin til að efla atvinnulífið eystra, hvað ætliði að gera fyrir fólkið á Vestfjörðum? Svörin við þeirri spurningu fela nefnilega í sér rökleysuna sem margir hafa fært fram í nauðvörn fyrir virkjun á hálendinu eystra. Þess vegna ber okkur að spyrja.
Ólína