Fara í efni

HVAÐA SKORÐUR VERÐA REISTAR?

Sæll Ögmundur.
Ljóst er að lögregla í flestum ríkjum, þar sem hún hefur heimildir til að fylgjast með borgurunum án þess að fyrir liggi rökstuddur grunur um glæpi, hefur misnotað þessar heimildir. Yfirleitt verður fyrir barðinu á slíkri misnotkun fólk sem gagnrýnir stjórnvöld. Þú talar nú eins og þær heimildir sem þú beitir þér fyrir að verði lögleiddar séu af öðrum toga. Því spyr ég: Hvaða skorður eru reistar við því að lögreglan misnoti þessar heimildir í þeim tillögum sem þú hyggst beita þér fyrir?
Bestu kveðjur,
Einar

Spurning þín er mikilvæg. Skilgreina þarf með afgerandi hætti þær reglur sem dómsúrskurður verður byggður á þegar rannsóknarheimildir eru gefnar. Slíkur úrskurður þarf alltaf að vera til staðar og síðan þarf að byggja eftirlit og aðhald inn í kerfið. Að þessu er nú unnið og munt þú og allir sjá afurðina áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar. Það er alveg kýrskýrt í mínum huga að heimildirnar taki aðeins til skipulagðrar skilgreindrar glæpastarfsemi.
Kv.
Ögmundur