Fara í efni

HVAR ER MESTA SÖKIN?

Heill og sæll Ögmundur. Í tilefni góðrar greinar þinnar um græðgina, gagnsæis-skortinn og ekki síst hina auð-smalanlegu, þá datt mér í hug að senda þér þýðingu mína á ljóði eftir hið frábæra tyrkneska skáld (rauðhærður, krullaður, bláeygur af pólskum ættum í bland, og með glettið blik í auga) Nazim Hikmet (1902-1963). Hikmet var sósíalisti, sem þurfti að dúsa í um 15 ár samtals í djeilinu í Tyrklandi...en lét aldrei bugast. Hélt alltaf mannlegri reisn og stolti og trúði á eilífa baráttuna gegn forræðisöflunum.
Takk fyrir þína góðu og heiðarlegu baráttu Ögmundur.
En við spyrjum um pólitísku vinglana, hina pólitískt auð-smalanlegu, séðir og túlkaðir þannig af Hikmet:

MESTA FURÐUVERKIÐ Á JÖRÐINNI

Þú ert eins og sporðdreki, bróðir, lifir í þínu huglausa myrkri eins og sporðdreki. Þú ert eins og spörfugl, bróðir, alltaf á sífelldu flökti. Þú ert eins og skeldýr, bróðir, lokaður í skelinni, sjálfum þér sæll. Þú ert skelfilegur, bróðir, eins og munnur gígsins, útbrunninn. Ekki einn, ekki fimm, því miður, þú ert einn af milljónum. Þú ert eins og sauður, bróðir, flykkist í hjörðina, þegar smalinn hóar ykkur saman og hleypur fagnandi, jarmandi stoltur, beinustu leið til slátrunar. Þú hlýtur að skilja orð mín. Þú ert mesta furðuverkið á jörðinni, meira að segja furðulegri en fiskurinn sem sér ekki hafið fyrir dropunum. Kúgun valdhafanna er vegna þín, bróðir. Og ef hungrið, sárin og nagandi þreytan sækja okkur heim og við erum kramdir í spað, eins og berin í víni okkar, er það vegna þín, bróðir. Ég get varla fengið mig til að segja það, en mestu sökina - kæri bróðir - átt þú.
Pétur Örn Björnsson