Fara í efni

Hvar voru fjölmiðlarnir?

Sæll Ögmundur.
Ég skrifaði þér lesendabréf  26. mars sl. þar sem ég fjallaði um blekkingar Bandaríkjastjórnar í Íraksmálinu og gaf vefslóð máli mínu til stuðnings. Allt þetta birtir þú undir fyrirsögninni Falsanir notaðar sem röksemdir fyrir styrjöld, og ég sé að enn er hægt að nálgast þetta bréf með því að fara í eldri lesendabréf frá þessum tíma. Nú eru fjölmiðlarnir loksins farnir að fjalla um þessar blekkingar þótt nokkuð seint sé í rassinn gripið. Hver er skýringin á deyfð fjölmiðla heldur þú, sofandaháttur, hræðsla, mannfæð eða pólitík?
Kveðja,Helgi

Sæll Helgi.
Það er ekki hægt að alhæfa um alla fjölmiðla og þá einstaklinga sem þar starfa. Sumir fréttamenn hafa oft  tekið góða spretti. Ég hef  t.d. séð ástæðu til að hrósa þeim Spegilsmönnum í RÚV og um daginn vakti ég athygli á ágætri grein Guðlaugs Bergmundssonar í DV um Afganistan svo annað dæmi sé tekið. Hitt skal ég taka undir með þér að mér finnst mikið vanta á að fréttamennskan sé nægilega kraftmikil þegar á heildina er litið. Þú nefnir sjálfur nokkrar hugsanlegar skýringar á deyfð fjölmiðlanna og má vel vera að þetta sé einhver blanda af því sem þú nefnir. Verkefni okkar er að vekja þá fjölmiðlamenn sem sofa af sínum Þyrnirósarsvefni enda er ábyrgð þeirra mikil.
Kveðja,Ögmundur