HVENÆR ER KOSIÐ Í REYKJAVÍK?
Sæll Ögmundur.
Eru borgarstjórnarkosningar nú á föstudaginn? Það er algjörlega með ólíkindum hvað þessi fánýti slagur milli tveggja karla tekur mikið pláss, tíma og athygli fjölmiðla nú dögum og vikum saman. Talað er eins og verið sé að takast á um eitthvað sem máli skiptir. Á dögunum var í morgunsjónvarpi Stöðvar 2 beinlínis sagt að borgarstjórnarkosningarnar byrjuðu nú á föstudaginn en þó tók steininn úr þegar Ólafur Þ. Harðarson prófessor var tekinn tali í fréttum Ríkissjónvarpsins og spurður hvernig hann læsi í skoðanakönnun um fylgi kallanna tveggja. ÓÞH: Munurinn er svo lítill að það er ómögulegt að segja á hvorn veginn þetta fer. S: Hvað telurðu að geti þá ráðið úrslitum, baráttan á lokasprettinum? ÓÞH: Ja, baráttan á lokasprettinum og það hversu duglegir menn eru að smala. Þvílík vísindi segi ég nú bara! Annað hvort eru þetta fréttir um ekkert eða verið er að telja okkur trú um að einhverju máli skipti hvor verður ofaná. Mig minnir að til séu fleiri flokkar á Íslandi. Er það ekki rétt munað?
Fjóla
Þakka þér fyrir bréfið Fjóla, sérstaklega síðustu ábendinguna. Það er rétt munað hjá þér að það eru fleiri flokkar í Reykjavík en Sjálfstæðisflokkurinn. En það er greinilegt að sumum fréttastofum hættir til að gleyma því.
Með kveðju,
Ögmundur