HVER Á AÐ AXLA ÁBYRGÐ?
Kæri Ögmundur. Hvernig væri að bændurnir við neðri Þjórsá tækju sig allir saman og myndu kæra Landsvirkjun fyrir sitt ofstæki.
Bestu kveðjur,
Jón Þórarinsson
Sæll og þakka þér bréfið. Á bloggi sínu 20. desember sl. var að finna eftirfarandi hugleiðingu á bloggi Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og langar mig til að svara bréfi þínu með þeim. (kv. Ögmundur):
"Horfinn Búðafoss í Þjórsá? Horfinn Urriðafoss í Þjórsá? Sokkin Hagaey, hólmar og flúðir í Þjórsá? Tæmdur árfarvegur neðan stíflna í Þjórsá? Sokknar jarðir meðfram Þjórsá? Sokkin híbýli bónda á bökkum Þjórsár? Tuttugu og sjö milljón tonn af vatni ofan stíflugarða Þjórsár á hripleku sprungusvæði Suðurlandsskjálfta? Hækkuð grunnvatnsstaða sem setur sveitir á flot við Þjórsá? Fuglalífi eytt við Þjórsá? Gengd 6.000 laxa á ári upp Þjórsá tortímt? Hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár í hættu? Lífríki við Þjórsá í víðasta skilningi þess orðs stórskaðað? Útsýni og fegurð Þjórsár í byggð horfin og aldrei endurheimt?...
Fornminjar, m.a. ævaforn þingstaður og vöð í Þjórsá síðan um landnám, glataðar? Stórfelld rýrnun starfsgrundvallar og jarðahlunninda við Þjórsá og þá tekjumöguleika? Aðrar hugmyndir og atvinnutækifæri en virkjanir í Þjórsá burtreka? Stórfellt rask og sjónmengun við Þjórsá uppúr og niðrúr vegna vegalagninga? Þjórsá afgirt og viðvörunarflautur pípa? Friður og samkomulag í sveitum meðfram Þjórsá einskis virði?"
Svona spurði Kristín Guðmundsdóttir uppalin við Þjórsá í vor.
Ég er að vonast til þess að einhver ábyrgur gefi landsmönnum þá jólagjöf að svara. Og þá er ég ekki að meina að Landsvirkjun svari, ég er að meina að eigendur Landsvirkjunar svari - hverju svara þau? Eða eru allir þægilega búnir að gleyma því hver það er sem á Landsvirkjun?