HVER BER ÁBYRGÐ Á HVERJUM?
Það gladdi mig Ögmundur að sjá hvað þessum gestapennavettvangi var gert hátt undir höfði í skrifum Þórólfs Matthíassonar í blaðagrein um daginn. Það var þó kannski á þinn kostnað þar sem þér var brigslað um að vera höfundur þeirra skrifa sem birtast í þessum dálki.
Þó ritstörf Þórólfs séu ekki mitt aðaláhugamál finnst mér skrif hans nú eiga meira erindi við mig en áður og vildi gjarna rita á síðuna hugleiðingu um hans síðasta innlegg, ef þú vildir vera svo vænn að taka hana til birtingar. Nú les ég sjaldan Fréttablaðið af ýmsum ástæðum, en sá vísað í greinarskrif Þórólfs í útdrætti á vefnum þar sem efnislega kom fram að kjósendur bæru ábyrgð á stjórnmálamönnum þar sem þeir væru valdir að kosningu þeirra. Það sem lýðræðislega kjörnir stjórnmálamenn láta dynja yfir þjóðir er samkvæmt því á ábyrgð kjósenda.
Hugmyndir og fræði um hvað móti tengsl borgara og valdhafa eru ævagamlar og sennilega jafngamlar ríkinu. Kjarni vandans hefur oft verið settur fram með þeim hætti að eftir að einstaklingur sest á valdastól getur verið snúið að hafa hemil á honum og tryggja að hann vinni að hagsmunum almennings fremur en að þrengri sérhagsmunum. Hugmyndir um þróun stjórnskipunar byggja almennt á þessu meginsjónarmiði, þ.e. að binda valdhafa við hagsmuni almennings og láta stjórnvöld endurspegla hagsmuni samfélagsins sem þau byggja.
Í tilfelli lýðræðislega kjörinna fulltrúa er almennur skilningur á sambandi þeirra og kjósenda á þann veg að stjórnmálamenn beri ábyrgð gagnvart kjósendum, enda sæki þeir umboð sitt til þeirra. Kjósendur hafa takmarkaða möguleika til að afturkalla það umboð eða takmarka veitt umboð innan kjörtímabils þó þeir geti endurnýjað eða afturkallað það í kosningum. Þetta hafa hagfræðingar fjallað um og kalla umboðsvanda. Þar er vísað til þess að stjórnmálamenn geta í krafti aðstöðu sinnar víkkað stakk sinn umfram það sem ætlað var og gefið lítið fyrir þær yfirlýsingar og loforð sem veitt voru fyrir kosningar.
Völd kjósenda eru því almennt ekki talin ráða öllu um athafnir valdhafa, heldur beri þeir nokkra ábyrgð sjálfir. Nálgun sú sem Þórólfur setur fram er þó miklu líkari því að þessi farvegur ábyrgðar renni nú uppímóti. Í þeim heimi eiga kjósendur að þegja og borga, en stjórnmálamenn hafa frítt spil. Það er að vísu rétt að endanleg ábyrgð á fjárhag ríkisins liggur hjá skattgreiðendum. Stjórnmálamenn ætla ekki að borga fyrir ríkisútgjöld einir. Einmitt þess vegna er nærtækara að líta á sem svo að skylda valdhafa sé að tryggja að reikningurinn sem þeir senda á aðra til greiðslu verði sem skaplegastur. Að ábyrgð stjórnmálamanna felist í því að reyna að ná fram sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir borgara, fremur en að það sé hlutverk borgara að greiða fyrir mistök þeirra án þess að spyrja spurninga? Er ekki dálítið langt seilst að segja að það séu rök fyrir því að greiða Icesave skuldbindingar að kjósendur beri ábyrgð á ákvörðunum og/eða aðgerðaleysi stjórnmmálamanna?
Árni V.