Fara í efni

HVER BORGAR BLOGGIÐ?

Það er ekki bara að framsóknarbloggarar ljúgi upp á Steingrím J. og Geir Haarde. Nú er vörn Péturs Gunnarssonar að verja sig með því að kenna um heimildarmanni sínum sem var fullur á bar í Reykjavík og hafði þar eftir öðrum fyllri söguna um fund Steingríms J. og Geirs Haarde. Var hann ekki blaðamaður útfarinn í vönduðum vinnubrögðum Moggans þessi drengur eins og forseti borgarstjórnar? Fennir fljótt í þau spor. Bloggarinn ungi kann greinilega ekki að skammast sín og á erfitt með að átta sig á því hvenær menn sitja í hægðum sínum og hvenær ekki. Þá stuttu stund sem hann var á Fréttablaðinu var mjög í tísku að spyrja hver ætti Fréttablaðið. Nú mætti spyrja í ljósi þess hversu hart menn berjast um og reyna að sækja fram úr fjóshaugi framsóknar: Hver borgar fyrir bloggin? Eru það þeir sem best ávöxtuðu pund sitt í einkvæðingu ríkisbankanna og eiga nú hlut í alvörubanka og sitja uppi með loftfélag?
Kveðja,
Þór

 

Þakka þér bréfið Þór. Lesendum til glöggvunar birti ég hér blogg af síðu Péturs frá í kvöld :

"Steingrímur J. var í fréttum Stöðvar 2 að sverja af sér að hafa átt einkafund með Geir H. Haarde í síðustu viku eins og hér hefur verið staðhæft. Þess vegna vil ég taka fram eftirfarandi um þær heimildir sem þetta byggði á: Um helgina var starfsmaður Steingríms J. Sigfússonar staddur á bar í Reykjavík í hópi blaðamanna og greindi þar frá því að Steingrímur og Geir H. Haarde hefðu nýlega hist á fundi. Skilningur heimildarmanns míns var að þar hefði ríkisstjórnarsamstarf borist í tal en um það treysti hann sér ekki til að fullyrða. Nú kemur Steingrímur fram og segir þetta lygi, þeir Geir hafi ekki hist í síðustu viku. Hvers vegna starfsmaður Steingríms er á blaðamannabar um miðja nótt að ljúga menn fulla með sögum af þessu tagi veit ég ekki, ég hef talið víst að Steingrímur J. Sigfússon hafi aðeins í kringum sig valinkunna og sannsögla sómamenn. "


Ég tek undir með þér Þór að heldur er þetta undarlegur málatilbúnaður. Já, framsóknarbloggararnir, hinir valinkunnu og sannsöglu sómamenn láta ekki að sér hæða!

Kv.
Ögmundur