HVER ER ÉG?
21.11.2008
Í mér er ekki mikill töggur,
hin mesta leti best mér finnst,
í starfi vil ég vera snöggur
og vanda mig sem allra minnst.
Mér þykir gott að liggja í leti
en leitt að vakna alltof fljótt
og svo er líka sagt ég geti
sofið bæði dag og nótt.
Af fólki sagður frekar tregur
og frekja ríður mér á slig,
ég elska að vera ömurlegur
en án þess þó að hreyfa mig.
Alveg laus við þunga þanka
en þreytulegur yfirleitt,
syfjaður í seðlabanka,
ég sit og geri ekki neitt.
Vinir mínir virðast snjallir
og vilja flestir klekkja á mér.
Ef gleymist ég þá gleðjast allir.
Og gettu núna hver ég er.
Kveðja,
Kristján Hreinsson