Fara í efni

HVER ER FORSÆTISRÁÐHERRA ÍSLANDS?

Ríkisendurskoðun sendi á dögunum frá sér tíu síðna minnisblað um hæfi Halldórs Ásgrímssonar í tengslum við sölu ríkisstjórnarinnar á Búnaðarbankanum árið 2002.

Þar kemur m.a. fram að þáverandi utanríkisráðherra, ofannefndum Halldóri, hafi ekki verið kunnugt um að hann var sjálfur hluti af S-hópnum svonefnda sem fékk Búnaðarbankann á kostakjörum á rýmingarsölu ríkisstjórnarinnar á eigum þjóðarinnar sem enn er opin fyrirfram völdum einkavinum og vandamönnum ríkjandi valdhafa.

Á þessu stigi málsins verður auðvitað hver og einn að trúa því sem hann vill um meint meðvitundarleysi Halldórs um eigin bankakaup. Engan hef ég þó enn talað við sem leggur trúnað á slíkt. Og af hverju trúir fólk ekki þessu meinta meðvitundarleysi? Þar veldur eflaust mestu sú einfalda og augljósa ástæða að hjá flestum að minnsta kosti mundi það teljast til þó nokkurra tíðinda að eiga þátt í því að kaupa heilan banka - að ekki sé nú talað um þegar svo óvenjulega hefur viljað til, eins og í tilviki Halldórs, að viðkomandi var hvort tveggja í senn; partur af “seljendagenginu” og “kaupendagenginu”.

En samkvæmt minnisblaði Ríkisendurskoðunar munu bankakaupin hins vegar hafa farið algerlega framhjá Halldóri og starfsmenn stofnunarinnar gera engar athugasemdir þar við. Þvert á móti kyngja þeir meintum óvitaskap hans leikandi létt eins og að drekka vatn. Ef til vill telja starfsmennirnir sig ekki þess umkomna að draga orð hans í efa, vonandi er ástæðan ekki sú að þeir séu orðnir svo gjörkunnugir sálarlífi og hegðunarmynstri yfirstéttarinnar að þeir séu orðnir því samdauna. En ef svo ólíklega mundi nú vilja til að Halldór hafi ekkert vitað um eigin bankakaup hlýtur sú spurning m.a. að vakna hvort vera kunni að eitthvað fleira, sem þorra þjóðarinnar er að líkindum í fersku minni, hafi farið framhjá Halldóri á síðustu árum. Skyldi hann til að mynda vita hver er forsætisráðherra á Íslandi í dag? Utanaðbókarlærdómur og staðreyndaþulur eru vissulega ekki skemmtileg iðja en það er engu að síður öllum hollt, og þar með töldum Halldóri Ásgrímssyni, að fylgjast aðeins með, vita svona sitt af hverju þó ekki væri nema í þeim tilgangi að vera samræðu- og selskapshæfur eins og kallað er – að ekki sé nú talað um mikilvægi þess að hafa sæmilega yfirsýn yfir eigin hagi og stöðu hverju sinni. Það getur til dæmis komið sér vel við árlega útfyllingu á skattframtali en Halldór hlýtur jú að þurfa að stunda þá íþrótt eins og við hin. Og þá þarf maður víst að hafa á takteinunum glöggar upplýsingar um eignir og eignabreytingar frá fyrra ári, skuldir og tekjur, svo stærstu póstarnir séu nefndir.

Minnisblað Ríkisendurskoðunar vekur upp margar áleitnar spurningar sem því miður er ekki leitast við að svara. Engra skýringa er leitað á ýmsum viðskiptakúnstum fjölskyldufyrirtækis Halldórs Ásgrímssonar í nánasta aðdraganda bankasölunnar, kúnstum sem engu að síður eru raktar í skýrslunni. Í minnisblaðinu beitir stofnunin frumstæðustu “rannsóknar”vinnubrögðum sem völ er á, hún heldur sig á “safnarastiginu” svonefnda en megineinkenni þess er að sanka að sér upplýsingum um hitt og þetta en vinna síðan ekkert úr þeim. Og tilburðir stofnunarinnar til að meta þó ekki sé nema beinan gróða fjölskyldunnar af hinum úthlutuðu Búnaðarbankahlunnindum eru á sömu lund, í skötulíki upplýsingasafnarans sem virðist ekki hafa neinar hugmyndir um til hvers hann er sanka að sér einhverjum reiðarinnar býsnum af sundurlausum fróðleiksmolum.

Í stað þess að reyna að vinna úr aðdregnum upplýsingum, sem reyndar hafa ekki allar reynst réttar en eru út af fyrir sig ágætar sem slíkar, hafa starfsmenn Ríkisendurskoðunar sökkt sér niður í læknisfræðilegar stúdíur og út frá þeim lagst í líkindareikninga á einhverjum leikjafræðilegum grunni um hæfi eða vanhæfi Halldórs. Meginniðurstaða stofnunarinnar er sú að vegna veikindaleyfis Halldórs á þeim tíma sem mikilvægustu ákvarðanirnar við sölu Búnaðarbankans voru teknar verði hann tvímælalaust að teljast hafa verið óhæfur til að vera vanhæfur en á hinn bóginn hæfur hefði hann ekki á annað borð verið óhæfur til að vera annað tveggja; hæfur eða vanhæfur!

Eftir að hafa lesið minnisblað Ríkisendurskoðunar leita á hugann ýmsar spurningar eins og til dæmis þessar: Hvert er eiginlega hlutverk stofnunarinnar? Eru vinnubrögð hennar í máli Halldórs Ásgrímssonar boðleg? Hvernig er þessi stofnun mönnuð? Ég geri ráð fyrir að þar starfi meðal annars viðskiptafræðingar, lögfræðingar og endurskoðendur en eru þarna líka innan um læknar, sálfræðingar, prestar og jafnvel heimspekingar með siðfræði sem sérsvið? Sé svo ekki, væri þá ekki ráð að bæta a.m.k. síðasttalda hópnum við í þeirri von m.a. að stofnunin gæti hugsanlega endurspeglað betur siðferðileg gildi þjóðarinnar? Og að lokum; er það virkilega svo að ljúka eigi máli háttvirts forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, með þeim hætti sem Ríkisendurskoðun hefur tilreitt það og borið á borð fyrir þjóðina í margnefndu minnisblaði?
Þjóðólfur