Fara í efni

HVER ERU RÖK ÞÍN?

Sæll Ögmundur.
Ég hef reynt að fylgjast með opinberrri umræðu í 10 12 ár nú. Stundum sammála og stundum ósammála eins og gengur. Þó hefur það komið mér á óvart hvað ég er oft sammála þegar þú leggur þitt á vogarskálarnar. Mér hefur fundist þú leggja málin skemmtilega fyrir, hafa afstöðu sem byggir á skynsemi og almanna heill og lang oftast líður mér eins og á baki orða þinna og aðgerða lyggi virðing fyrir einstaklingnum. Þetta hugnast mér.
Ég sé samt ekki allveg hvað rök eru fyrir því að ákæra ekki Geir H. Haarde. Þó auðvita eigi að ganga miklu fastar fram í að krefjast ábyrgðar af þeim sem stunda almenningsþjónustu og mun fleiri en Baldur og Geir eigi að sitja fyrir dómi. Það þýðir samt ekki að Geir eigi ekki að sitja þar er það? Aðrir en hann eru vissulega líka "sekir" en hann hlýtur að vera í það minsta ákæranlegur fyrir vanefndir í starfi, hagfræðingur sem hafði völd og vissi að ef hann gerði ekkert myndi allt fara út í móa, en hann gerði samt ekkert. Það hljómar í mínum eyrum eins og vanræksla á skyldum sínum. En þínum? Fyrirspurn mín er því sú; hvaða rök getur þú gefið mér fyrir þeirri áhvörðun þinni að vilja ekki ákæra Geir H Haarde?
Hallur Hróarsson

Sæll og þakka þér bréfið sem því miður hefur dregist aðeins að birta. Ég hef fært rök fyrir afstöðu minni og vísa ég í pistla á síðunni og greinar sem ég hef birt. Uppi eru vissulega mismunandi sjónarmið hvað þetta varðar. Sjálfum finnst mér þessi réttarhöld nánast orðin skrumskæling á pólitísku uppgjöri. Aðeins átta mánuðir í aðdraganda hruns eru til skoðunar, einn maður svarar til saka og þá aðeins um yfirborð hlutanna. Um þetta fjalla ég í pistlinum Ákæran gegn Geir (https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/akaeran-gegn-geir) . Málið er sett í umbúðir sakamáls þar sem krafist er fjársekta og fangelsisdóms. Bið þig að lesa pistil minn Hallur. Þar sérðu alla vega mín rök.
Kv.,
Ögmundur