Hver verður endanlegur kostnaður?
Ég hef miklar áhyggjur af virkjunaráformum og ekki minnkuðu þær við tilboð sem samþykkt var frá Impregilo. Eg hef ekki fengið þetta staðfest en þegar Kaupmannahafnarkommúna auglýsti eftir tilboðum í fyrirhugað neðanjarðarlestarkerfi var lægsta tilboð 2.7 milljarðar danskra króna sem kom frá frá einhverri samsuðu stórra verktaka, þar á meðal Impregilo. Þegar verkið kláraðist var kostnaðurinn kominn yfir 12 milljarða danskra króna, eða fjórfalt það sem þeirra tilboð hljóðaði uppá. Ef Kárahnjúkavirkjun fer fram úr áætlun hverjir standa þá uppi með kostnaðinn, Impregilo eða skattgreiðendur? Önnur spurning, getur íslenska ríkið staðið við kostnað ef allt færi á versta veg einsog í danska tilfellinu? Að lokum minni ég á það að ég hef ekki fengið þetta danska dæmi staðfest en það fékk mig samt til að hugsa.
Kveðja Andrés Kristjánsson
Komdu sæll Andrés
Þetta er nákvæmlega það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi þau tilboð sem þegar hafa verið opnuð. Þetta er athyglisvert sem þú segir um gangnagerð í Kaupmannahöfn. Ég hef þegar gert ráðstafanir til að afla upplýsinga um þetta efni. Áður hafa borist fréttir af ótrúlegum mismun, t.d. í tilfelli Ermasundsganganna, á tilboðstölum annars vegar og endanlegum kostnaði hins vegar. Vandamálið við slík gangnaútboð, eða aðrar framkvæmdir sem ekki er mögulegt að gera að ölli leyti grein fyrir, að það sem ekki kemur fyrir í útboðslýsingu, er á ábyrgð kaupanda. Þannig mun fyrirtæki eins og Impregilo hafa allar klær úti til að krefja LSV um allt sem lýtur að frávikum frá útboðslýsingu. Að baki standa síðan eigendurnir, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyri.
Annað sem maður stendur bókstaflega afgndofa gagnvart eru yfirlýsingar samningamanna Íslands. Það er engu líkara en þeir séu allir í fjögurra ára bekk. Stundum vakna grunsemdir um að upplýsingum sé lekið til tilboðsgjafa. Um slíkt þarf ekki að fara í grafgötur með í þessu tilviki. Kostnaðartölurnar básúna „hagsmunagæslumenn“ Íslands á forsíðum dagblaða og í útvarps- og sjónvarpsþáttum áður en útboð eru opnuð!
Þetta var gert eftir að flest erlendu fyrirtækjanna höfðu hrökklast frá útboði vegna þess að áhættan var talin mikil og þau höfðu auk þess fundið fyrir andúð umhverfisverndarsinna gegn því að þau tækju þátt í umhverfisspjöllunum. Þá voru góð ráð dýr og upplýsingarnar birtar á forsíðum og baksíðum íslenskra dagblaða. Þannig sagði í frétt DV daginn fyrir útboðsopnun : „Fjórir berjast um 40 milljarða verk“ og síðar „Hér er um að ræða stærsta tilboð, sem um getur á Íslandi, trúlega um eða yfir 40 milljarða framkvæmd.“ Sama dag, þ.e. 5.12. segir í Mbl. „Útboð í stíflugerð og borun aðrennslisganga er hið stærsta sem fram hefur farið hér á landi en áætlaður kostnaður er um 40 milljarðar króna.“ Þann 3.12. sagði í Morgunblaðsgrein eftir Stefán Pétursson fjármálastjóra og Kristján Gunnarsson deildarstjóra fjármáladeildar LSV m.a.: „Landsvirkjun stendur við fyrri yfirlýsingar um að ekkert bendi til annars en að Kárahnjúkavirkjun sé mjög arðbært verkefni. Enn betri vísbendingar munu fást þar um á næstu dögum, þegar tilboð verða opnuð í stóra verkhluta.“
Í framhaldi af þessum yfirlýsingum er eðlilegt að spurt sé um hver tengsl séu á milli ítalska fyrirtækisins og Landsvirkjunar. Mundi Stefán Pétursson, einn af æðstu mönnum LSV taka svo til orða, nokkrum dögum fyrir útboðsopnun, eftir að útboðsopnun hefur í tvígang verið frestað, fyrir tilstuðlan hins ítalska fyrirtækis, ef hann hefði ekki „hugboð“ um hvað í vændum væri?
Ef þessar tölur þínar Andrés eru eitthvað nálægt því sem gerðist með Kaupmannahafnargöngin, getum við rétt ímyndað okkur í hvaða „disaster“ stefnir, ef farið verður í Kárahnjúkabrjálæðið. Við sem höfum barist gegn þessari framkvæmd á grundvelli þess, að miðað við útlit og horfur, væru yfirgnæfandi líkur á að virkjunin yrði rekin með miklu tapi, höfum þrátt fyrir allt ávalt miðað við kostnaðartölur LSV.
Engu að síður höfum við verið mjög fjarri því að „ná landi“. Ég ítreka að nauðsynlegt er að fá staðfestar upplýsingar um Kaupmannahafnargöngin og aðrar hliðstæðar framkvæmdir sem að gagni mega koma. Ég nefndi Ermasundsgöngin hér að framan. einhvern tíman var rætt um Elbugöngin (í Hamborg) í svipuðu samhengi. Þau voru aðeins nokkurra km. löng, en fóru langt fram úr áætlun.
Kveðja, Ögmundur