Fara í efni

HVERJIR ERU HINIR STOFUHREINU?

Ég á vægast sagt engin orð yfir ósvífni Alcoa og íslenskra stuðnigsfyrirtækja að bjóða Economist til að efna hér til frjálshyggjuhátíðar til að fagna einkavæðingu undangenginna ára og örva fjölþjóðlega auðhringa til að sækja í orku okkar landsmanna á komandi árum fyrir eiturspúandi stóriðjuver sín. Steingrímur J. Sigfússon reifar þetta ágætlega í Morgunblaðsgrein sinni í dag sem þú einnig birtir hér á síðunni. Hann talar þar um að ekkert nema "stofuhreinir stuðningsmenn Kárahnjúkavirkjunar" komist á umræðupall á þessari makalausu ráðstefnu sem kostar vel á annað hundrað þúsund krónur að sækja. En hverjir skyldu vera hinir stofuhreinu? Ég sé í bæklingnum sem þú gefur slóðina fyrir að úr röðum VG, sem einn flokka hefur haldið uppi málstað umhverfisverndar og íslenskra atvinnuhagsmuna í stóriðjufári undangenginna ára, er engum boðið til beinnar þátttöku í umræðunni. Hins vegar má sjá í bæklingnum að formaður Samfylkingarinnar er þar á palli. Skyldi þingflokkur þess flokks mæta til að hlusta á formann sinn gegn gjaldi upp á 1800 Evrur? Það hlýtur alla vega að vera gaman að fá að kaupa sig inn á fund þar sem prísinn er settur upp í Evrum.
Haffi