Hverjir tóku ákvörðun um þátttöku Íslendinga í loftárásum á Serbíu?
Ögmundur.
Mig langar að vita hvernig ákvarðanatöku var háttað þegar Ísland samþykkti aðild að loftárásum á Serbíu vegna Kosovo. Tóku Davíð og Halldór þá ákvörðun upp á eigin spýtur eða var hún tekin í umboði utanríkismálanefndar?
Kær kveðja, áfram Ísland, Friðrik
Sæll og blessaður Friðrik.
Um málið mun hafa verið fundað í utanríkismálanefnd. Að forminu til kann því að hafa verið um samráð að ræða gagnstætt því sem gerðist fyrir Nató-fundinn í Prag nú nýlega þar sem þeir Davíð og Halldór lofuðu upp á sitt einsdæmi ( en þó í samkomulagi við Flugleiðir og Atlanta ) að lána Nató íslenskar flugvélar til að flytja hermenn gerist þess þörf. En þótt formskyldum kunni að hafa verið fullnægt vorið 1999 þegar ráðist var á Serbíu þá var allt klappað og klárt þegar þessi mál voru rædd í utanríkismálanefnd. Árásirnar voru harðlega gagnrýndar af hálfu VG og ráðherrarnir krafðir svara hvort Íslendingar væru að falla frá fyrirvörum sem við settum við inngöngu í NATO um að við myndum aldrei segja öðrum þjóðum stríð á hendur. Halldór Ásgrímsson utanríkisráherra kvað þetta ekki vera stríðsyfirlýsingu með hefðbundnum hætti heldur eins konar aðgerð. Í fjölmiðlum voru forsætisráðherra og utanríkisráðherra spurðir hverju þeir ætluðu að svara komandi kynslóðum sem kæmu til að bera ör þessa stríðs. Fátt varð um svör.
Kveðja, Ögmundur