HVERNIG AUKA MÁ VIRÐINGU ALÞINGIS
Þetta er fremur tillaga en spurning. Til að auka virðingu og virkni Alþingis legg ég til að það verði sett regla um að ekki sé fundarfært ef minna en 2/3 alþingismanna sitji fundinn. Mér finnst það óvirðing við þjóðina ef alþingismenn sitja ekki fund. Þætti gaman að fá viðbrögð.
Nils
Tillagan þykir mér góð að því leyti að þeir sem kosnir eru til þingsetu eiga alltaf að sækja þingið nema vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Annað er óvirðing við þing og þjóð. Undir það tek ég með þér. Síðan er á hitt að líta að þingmenn geta verið á Alþingissvæðinu og að störfum jafnvel þótt þeir sitji ekki í þingsal. Í skrifstofum þingmanna er sjónvarp þar sem þeir geta fylgst með umræðum en jafnframt sinnt öðrum verkefnum.
Hitt finnst mér eigi að vera regla að allir þeir sem sitja í fastanefndum þingsins séu í þingsal þegar þeirra málasvið er til umræðu. Á þessu eru miklar brotalamir. Einnig er það forkastanleg óvirðing við þingið þegar ráðherrar eru út og suður á meðan fjárlög eru til umræðu og þar með þeirra ábyrgðarsvið. Ráðherrar eiga að vera til staðar svo og formenn nefnda. Jafnvel þeir síðarnefndu eru ekki alltaf á svæðinu.
Það eru hlutir af þessu tagi sem þingmenn VG hafa viljað breyta og höfum við talað fyrir því. Hægt er að stytta umræður og gera þær markvissari með þessum hætti. Umræður teygjast nefnilega á langinn þegar menn fá engin viðbrögð – hvað þá svör – við málatilbúnaði sínum.
Kveðja,
Ögmundur