Hvers á Hagfræðistofnun að gjalda?
Komdu sæll Ögmundur.
Þakka þér fyrir greinarnar um spilavítin sem birst hafa í blöðum að undanförnu og síðan einnig á heimasíðunni. Ekki fannst mér stórmannlegt af aðstandendum spilakassanna að reyna strax eftir að sjónvarpið sýndi frábæra heimildarmynd um spilafíkn fyrir nokkrum dögum að gera lítið úr vandanum. Myndin hafði verið auglýst talsvert upp fyrir sýningu og greinilegt að þessir aðilar höfðu reynt að hugsa upp einhver ráð til mótvægis myndinni. Þetta gæti skýrt könnun sem birtist fljótlega eftir sýningu myndarinnar og átti að sýna að börn spiluðu minna en haldið var fram í myndinni. Sjálfri finnst mér þetta deila um keisarans skegg. Nákvæmlega hve margir eru háðir spilunum skiptir ekki öllu máli, fyrir nú utan það hve þessar kannanir eru líklegar til að gefa ranga mynd. Svarar unglingur sem háður er fjárhættuspili heiðarlega þegar hann er spurður? Ég efast stórlega um það.
Ég þekki nokkuð til þessarar fíknar og skelfilegra afleiðinga hennar. Þótt aðeins brotabrot af þeim sem kannanir segja að séu haldnir spilafíkn væru það í raun, þá myndi það réttlæta bann við þessum vítisvélum. Ég vildi gjarnan geta spurt þá sem ekki eru haldnir spilafíkn en spila endrum og eins: Fyndist ykkur þið fara mikils á mis þótt kassarnir hyrfu? Ég held að fáir myndu svara þessu játandi. Það er nefnilega alveg rétt sem kom fram hjá þér Ögmundur í svari við bréfi Orra Hermannssonar að þeir sem halda spilavítunum gangandi eru annars vegar hinir spilasjúku og hins vegar aðstandendur kassanna. Þeir síðarnefndu eru nefnilega kössunum fjárhagslega háðir – þeir eru sjálfir eins konar fíklar sem virðast ekki alveg sjálfráðir gjörða sinna.
Það var ágæt hugmynd hjá þér að merkja Gullnámuna sem Háskóli Íslands rekur einstökum deildum háskólans ( eins og þú gerðir í Morgunblaðs-greininni) þannig að spilafíklar gætu alltaf vitað hvaða deild skólans þeir eru að styrkja þegar þeir pumpa peningunum sínum í kassana. Þú lagðir til að Læknadeildin fengi Gullnámuna á Skólavörðustíg og Siðfræðistofnun fengi Hlemm. En mér er spurn, hvers á eiginlega Hagfræðistofnun að gjalda; á hún ekki að fá neitt?
Helga.
Komdu sæl Helga.
Þetta var að sjálfsögðu ekki hugsað sem tæmandi listi. Auðvitað hlýtur Hagfræðistofnun að fá sitt eins og aðrar deildir Háskóla Íslands. Mér er ekki kunnugt um hve margar Gullnámubúllurnar eru sem Háskóli Íslands rekur en ef þær eru ekki nógu margar fyrir allar helstu deildir skólans mætti hugsa sér að Hagfræðistofnun fengi einhverja góða sjoppu sem gæfi vel af sér.
Þetta hljómar að sjálfsögðu allt eins og grín. En það er nú einu sinni staðreynd að Háskóli Íslands, Rauði krossinn, Landsbjörg og SÁÁ fjármagna sig að hluta til með rekstri spilavítisvéla. Það er á ábyrgð löggjafans og samfélagsins alls. Það er okkar sem störfum á löggjafarsamkundunni að finna öllum þessum stofnunum, sem við viljum svo sannarlega að séu við lýði og dafni vel, aðra tekjustofna. En það er ömurlegt til þess að vita að innan þessara stofnana verður maður ekki var við að hreyft sé andmælum við siðleysinu. Ef til vill yrðu deildir Háskóla Íslands stoltar af því að spilavíti yrðu kennd við þær. Þögnin gefur tilefni til að ætla að svo sé.
Kveðja, Ögmundur