Fara í efni

HVERS VEGNA Á OR AÐ VEITA MAGMA LÁN?

Sæll.
Ég hef verið að velta fyrir mér þessum tilboðum Magma Energy í orkufyrirtæki hér á landi. Allt í þessu máli minnir mann á aðvaranir sem heyrðust þegar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom hér inn í kjölfar hrunsins. Bent var á hættuna á því að við myndum selja auðlindir okkar ódýrt bara til að fá einhvern gjaldeyri inn og að sjóðurinn myndi þrýsta á stjórnvöld að samþykkja slíkar hugmyndir. Núna virðist þetta vera að gerast.
Það getur varla talist eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur sé að lána stóran hluta kaupverðsins sem kúlulán til 7 ára. Á þeim tíma getur Magma blóðmjólkað fyrirtækið í formi arðgreiðslna og fengið aðgang að þeirri þekkingu sem búið er að byggja upp innan fyrirtækisins. Að 7 árum liðnum veit enginn hvað gerist sbr. reynsluna af einkavæðingu bankanna okkar, blessuð sé minning þeirra. Það getur allt eins gerst að Magma verði, að 7 árum liðnum, búið að ná til baka úr félaginu útborguninni og skilja eftir skuldsetta skel eins og gerðist með bankana okkar.
• Ef hluturinn verður samt sem áður seldur, hvaða tryggingu höfum við fyrir því að reksturinn verði til hagsbóta fyrir landsmenn og arðurinn renni ekki úr landi?
• Afhverju tekur félagið ekki lán hjá lánastofnunum í Kanada eða Bandaríkjunum á þeim lágu vöxtum sem allir tala um að séu í boði og borgar greindan hlut upp í topp þ.e. skuldar hinum erlendum bönkum eftirstöðvar kaupverðsins frekar en að Orkuveita Reykjavíkur taki að sér að fjármagna þessi kaup?
• Ef kjörin eru ekki nógu hagstæð í þessum löndum, fyrir fyrirtæki sem er jafn vel rekið og vel stætt og eigandi þess segir, er þá eðlilegt að Orkuveita Reykjavíkur taki þessa áhættu og veiti lánið? Það er eins og það eigi bara að selja sama hversu lélegt tilboðið er.
Með þessu erum við að setja okkur á bekk með þriðja heims ríkjum sem selja náttúruauðlindir sínar ódýrt og láta arðræna sig. Að nokkru leyti eru þessi fyrirhuguðu viðskipti einnig eins og dæmigerð "2007" viðskipti. Frekar lítil útborgun. Kúlulán til langs tíma. Ótrygg veð, bara á sjálfum hlutabréfum félagsins. Hætta á að kaupandi blóðmjólki eignina. Raunveruleg áhættan hjá almenningi í landinu. Hafa menn ekkert lært? Ég held að það sé meiri reisn yfir því að eiga þessi fyrirtæki sjálf og vænlegra til framtíðar, enda hefur sala á orkufyrirtækjum til einkaaðilia nánast alltaf leitt til hækkunar á raforkuverði. Mýmörg dæmi til að varast má einmitt finna t.d. í Bandaríkjunum sbr. Kaliforniu og Montana. Látum ekki tímabundna erfiðleika beygja okkur í duftið. Við eigum sjálf að eiga og reka fyrirtæki sem nýta auðlindir okkar.
Kveðja,
Kristján Gunnarsson