HVERS VEGNA ER VG ANDVÍGT VATNALÖGUNUM?
Sæll Ögmundur.
Ég hef mikið velt einu fyrir mér varðandi deilurnar um vatnalögin nýju sem þið Vinstri-græn eruð svo ákaflega á móti. Af hverju er það svo, þegar að allir lögspekingar þessa lands telja að ekki sé um breytingu á núverandi réttarástandi? Er ekki hin raunverulega staða sú að um er að ræða einföldun á löngum og flóknum lögum?
Hafstein
Sæll Hafsteinn og þakka þér bréfið. Ég hef nú ekki trú á því að allir lögspekingar þessa lands séu á því að lögin breyti ekki núverandi réttarástandi. Hitt er vissulega rétt að þeir segja margir að lagabreytingin sé í þá átt sem lagatúlkanir og dómapraxís hafi gengið út á. Lögin eins og ég skil þau styrkja einkaeignarhald á vatni verulega og ef svo hefur í reynd verið að gerast í dómum á undanförnum árum og áratugum þá er það mín skoðun að ástæða sé til að sveigja í gagnstæða átt og styrkja almannahagsmuni og sameign þjóðarinnar á vatnsauðlindinni. Við erum komin langan veg frá því að bóndinn hafi afnotarétt yfir vatninu á bújörðinni. Við blasir stórfelld nýting á vatni, iðulega á vegum stórfyrirtækja. Það er mikil skammsýni að breyta lögunum einkaeignarréttinum í vil þegar slík framtíð blasir við, jafnvel þótt tilhneigingin fyrir dómstólunum hafi verið í þessa átt.
Með kveðju,
Ögmundur