Fara í efni

HVERS VEGNA FORSTJÓRAR STYÐJA HÁEFFUN

Mér varð illt þegar ég heyrði Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóra, lýsa því yfir að hann vilji ekki að Orkuveita Reykjavíkur verði seld. Það sé aðeins verið að breyta forminu á fyrirtækinu með því að gera það að hlutafélagi. Í nánast öllum tilvikum þegar stofnanir í eigu samfélagsins hafa verið einkavæddar á undanförnum árum hefur viðkvæðið verið þetta: Við erum bara að háeffa, ekki selja. Alltaf hafa þetta reynst vera ósannindi. Í gær var framkvæmdastjóri SA mættur í útvarp að taka undir með Reykjavíkur-Íhaldinu. Hann sagði að þetta væri liður í því að losna við pólitíkusa úr stjórnum stofnana. Það er nefnilega það. Lýðræðið þvælist fyrir þeim. Vont að hafa Svandísi Svavarsdóttur með sínar óþægilegu spurningar inni í stjórn OR! Og hvers vegna skyldi forstjóraliðið í OR vera fylgjandi háeffun? Gæti verið að forstjórar sjái fram á kjarabót í launaumslaginu? Að þeir fái kannski bíl eins og Páll hinn háeffaði útvarpsstjóri? Reynslan sýnir að við hlutafélagavæðigu og einkavæðingu fitna forstjórarnir en þrengt er að láglaunafólkinu. Því er iðulega hagrætt út úr hinum einkavæddu fyrirtækjum. Hvenær kemur að því að við gerum uppreisn gegn þessu gripdeildarfólki!
Sunna Sara